Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjórir ráðherrar hafa sagt af sér í Líbanon

10.08.2020 - 13:06
epa08390310 Anti-government protesters attend a protest against the collapsing Lebanese pound currency and the price hikes of goods in front the Lebanese Central Bank in Beirut, Lebanon 28 April 2020. According to media reports, the Lebanese Lira has slumped since October as Lebanon has sunk deeper into a financial crisis that has hiked prices, fueled unrest, and locked depositors out of their US dollar savings.  EPA-EFE/NABIL MOUNZER
Mótmælendur við hús seðlabanka Líbanons í Beirút í fyrrakvöld. Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjórir ráðherrar í ríkisstjórn Libanons hafa sagt af sér á undanförnum dögum. Ghazi Wazni, fjármálaráðherra og Marie-Claude Najm, dómsmálaráðherra, tilkynntu afsögn í morgun. Nú er vitað að meir en 200 fórust í sprenginunum í höfuðborg landsins, Beirút, á þriðjudag í síðustu viku. Mikil reiði ríkir í Líbanon og enn var krafist gagngerra breytinga á stjórnarfari í mótmælum í gær.

Vill að öll ríkisstjórnin segi af sér

Marie-Claude Najm, dómsmálaráðherra, hafði áður lagt til að öll ríkisstjórn Líbanons færi frá. Ríkisstjórnarfundur verður eftir hádegi og búist er við að tilkynni stjórnin ekki að hún fari frá völdum verði lögð fram vantrauststillaga á þingi. Margir þingmenn hafa lýst yfir því að þeir beri ekki lengur traust til stjórnarinnar. Að minnsta kosti níu þingmenn hafa einnig sagt af sér.

Stjórnvöld rúin trausti

Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanons, sagði fyrir helgi að hann vildi rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta. Almenningur hefur misst allt traust á stjórnvöldum og kennir duglausum og spilltum ráðamönnum um sprengingarnar í síðustu viku. Þeir hafi ekkert aðhafst þó að vitað væri að nærri 3000 tonn af stórhættulegu efni væru í vörugeymslu við höfnina í Beirút.

Enn var mótmælt á götum Beirút í gær

Spilltum og getulausum ráðamönnum hefur verið mótmælt frá því í október í fyrra. Hlé varð á mótmælunum þegar COVID-19 faraldurinn braust út í mars en þau hafa færst í aukana síðustu daga. Mótmælendur krefjast gagngerra breytinga á stjórnkerfi landsins. Margir lýstu hryggð og sorg vegna látinna ástvina.

Meir en 200 látnir og tuga saknað

Vitað er að meir en 200 létust í sprengingunum og um 6000 slösuðust. Marwan Abboud, borgarstjóri Beirút, segir að tuga annarra sé saknað. Mörg þeirra séu erlendir borgarar sem hafi unnið í Líbanon. 

Rannsókn hafin

Ghassan El Khoury, dómari, stjórnar rannsókn á orsökum sprengingana. Fyrsta verk hans var að yfirheyra hershöfðingjann Tony Saliba, sem er yfirmaður öryggismála Líbanons. Þetta er haft eftir ríkisfréttastofu landsins en ekkert var sagt frekar. Stjórnvöld hafa hafnað kröfum um óháða alþjóðlega rannsókn.