Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

FH-ingar í kapphlaupi við tímann

Mynd: Mummi Lú / RÚV

FH-ingar í kapphlaupi við tímann

10.08.2020 - 19:00
FH dróst gegn slóvakíska liðinu Dnuajska Streda í forkeppni Evrópudeildarinnar í dag. Leikur liðanna á að fara fram í Kaplakrika 27. ágúst en ekki er ljóst hvort af því verður. FH hefur til klukkan 11 í fyrramálið til að tilkynna Evrópska knattspyrnusambandinu hvort liðið geti haldið leikinn.

Vegna kórónuveirufaraldursins er ekki leikið heima og heiman að þessu sinni heldur er aðeins einn leikur sem verður leikinn 27. ágúst. Breiðablik og Víkingur leika bæði á útivelli, Blikar gegn Rosenborg í Þrándheimi og Víkingur gegn Olimpija Ljubljana frá Slóveníu. FH fékk hins vegar heimaleik við slóvakíska liðið Dunajska Streda.

Á meðan enginn fótbolti er leikinn hér á landi af sóttvarnarástæðum er ekki ljóst hvernig fer með leik FH, og tíminn er naumur. FH-ingar hafa fram til klukkan 11 í fyrramálið að staðfesta við Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, að hægt sé að leika hér á landi. Að öðrum kosti verður leikið á varavelli utan Íslands. FH og KSÍ funduðu með ráðherra og sóttvarnaryfirvöldum í dag og vona það besta.

„Það verður að koma niðurstaða. Hvort að niðurstaðan verði já eða nei er auðvitað spurningin. Þeim mun fyrr sem við vitum hvort að niðurstaðan er já eða nei þá getum við allavega gert aðrar ráðstafanir. Við höfum þá þann möguleika að spila á hlutlausum velli og við erum aðeins búin að undirbúa það ef til kæmi en það skiptir líka máli að geta tilkynnt það tiltölulega hratt. Við höfum í raun til 11 í fyrramálið samkvæmt reglunum til þess að gera það. Þannig að við þurfum að fá í versta falli nei-ið til þess að geta sett plan B í gang. En við erum bjartsýn að fá að spila á þessum fallega græna velli og við gerum allt, og vonum að okkar besta fólk vinni með okkur í því ef möguleiki er.“ segir Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH.

Ummæli Valdimars má sjá í spilaranum að ofan.