Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ferðafólki vísað frá Færeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Þremur ferðalöngum frá Rúmeníu og Spáni sem komu til Færeyja um helgina var synjað um að koma inn í landið. Fólkið lenti á Voga-flugvelli á föstudag og laugardag. Öllum var gert að snúa til síns heima.

Rúmeninn fór samdægurs og spænska parið í gær, sunnudag. Fólkið kemur frá há-áhættusvæðum og var því vísað brott frá eyjunum, auk þess sem erindi þess þangað taldist ekki brýnt. Þegar þannig er í pottinn búið gildir einu þótt viðkomandi greinist laus við kórónuveirusmit.

Strangar reglur settar ferðalöngum

Í síðustu viku settu færeysk stjórnvöld strangar viðmiðunarreglur sem allt ferðafólk þarf að fylgja. Gert er ráð fyrir að það dvelji í einangrun uns niðurstöður fyrstu skimunar berast. Það tekur yfirleitt innan við sólarhring.

Jafnframt er hvatt til sérstakrar varúðar á leið frá flugvelli eða ferjuhöfn á dvalarstað. Gestir eru hvattir til að fara í skimun að nýju á sjötta degi ferðar sinnar.

Þangað til niðurstaða liggur fyrir er lagt fast að fólki að gæta að samskiptafjarlægð, persónulegum smitvörnum og að forðast mikinn mannfjölda. Sú regla á almennt við í Færeyjum nú.

Sömuleiðis er ætlast til að finni komufarþegar til Færeyja fyrir einkennum Covid-19 fari þeir í sjálfskipaða einangrun. Öll kórónuveirupróf í Færeyjum eru gerð án endurgjalds auk þess sem ferðamenn fá bækling í hendur um hvaða viðmiðunarreglur gilda þar í baráttunni við veiruna.