Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Enn von í baráttunni gegn COVID-19

10.08.2020 - 16:50
epa08525390 World Health Organization (WHO) Director-General Tedros Adhanom Ghebreyesus attends a press conference organized by the Geneva Association of United Nations Correspondents (ACANU) amid the COVID-19 pandemic, caused by the novel coronavirus, at the WHO headquarters in Geneva, Switzerland, 03 July 2020.  EPA-EFE/FABRICE COFFRINI
Tedros Adhamom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.  Mynd: EPA-EFE - Keystone
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir að gera megi ráð fyrir því að í vikunni nái fjöldi COVID-19 smita í heiminum 20 milljónum og að dauðsföll verði samtals 750.000 frá upphafi heimsfaraldursins.

„Í þessari tölfræði er fólginn ótrúlegur sársauki og tregi. Hvert líf sem hefur tapast í þessari baráttu skiptir máli. Margir syrgja nú ástvini og þetta eru erfiðir tímar um allan heim,“ segir Tedros. AFP fréttastofan greinir frá.

Hann minnir fólk þó á að enn sé von til að sigrast á COVID-19 faraldrinum og tekur dæmi um lönd þar sem tekist hefur að takmarka útbreiðslu faraldursins, eins og Nýja Sjáland og Rúanda. Hann hvetur þjóðir heimsins til að gera allt sem þær geta til að stemma stigu við útbreiðslunni. „Ef við höldum faraldrinum niðri, þá fyrst getum við opnað samfélögin með öruggum hætti,“ segir hann.

Kapphlaupið um þróun bóluefnis

Þróun bóluefnis hefur aldrei gengið jafnhratt og hún gerir í baráttunni gegn COVID-19. Í samantekt frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni kemur fram að nú sé unnið að 165 rannsóknum á bóluefni og að nú þegar hafi verið gerðar ýmsar tilraunir á mönnum. 

Þó sé ljóst að ekki takist að ráða niðurlögum faraldursins um leið og bóluefni finnst. „Við höfum fullkomið bóluefni gegn mislingum og mænusótt en þó þurfum við enn að berjast við sjúkdómana víða um heim,“ segir Tedros. „Bóluefni er bara hluti af lausninni. Svo þarf að dreifa því um heiminn og tryggja framboð til þeirra sem þurfa.“