Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert brúarlán verið veitt og fáir lokunarstyrkir

10.08.2020 - 21:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn hefur ekkert brúarlán verið veitt þótt úrræðið hafi staðið fyrirtækjum til boða í þrjá mánuði. Þá hefur aðeins fjórðungur af þeim fyrirtækjum sem eiga rétt á lokunarstyrk sótt um hann

Ríkisstjórnin kynnti í mars og apríl á annan tug efnahagsaðgerða til að bregðast við efnahagslegum áhrifum Covid-faraldursins.

Ein stærsta aðgerðin í fyrsta pakkanum var veiting brúarlána til fyrirtækja í rekstrarvanda til að borga laun og fastan kostnað. Það var ekki fyrr en í maí sem fyrirtæki gátu sótt um brúarlánin en eftirspurnin hefur verið lítil sem engin. Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum hefur ekkert slíkt lán verið veitt og umsóknir teljandi á fingrum annarrar handar. Heildarábyrgð ríkissjóðs vegna lánanna var metin á 50 milljarða króna. 

Öllu meiri eftirspurn er eftir stuðningslánum sem eru með 100 prósent ríkisábyrgð og ætluð minni fyrirtækjum. Um mánuður er síðan opnað var fyrir umsóknir og hafa nú þegar vel á sjötta hundrað fyrirtæki sótt um lán fyrir samtals 5 milljarða króna.

Nú þegar er búið að afgreiða 237 umsóknir upp á 1,9 milljarða króna. Meðal lánsfjárhæð nemur því um 8 milljónum króna. 330 umsóknir eru í ferli hjá bönkunum. Hægt er að sækja um stuðningslán til áramóta en ríkisstjórnin mat áhrif aðgerðarinnar á 28 milljarða króna. 

Fyrirtæki sem þurftu að loka tímabundið vegna sóttvarnaaðgerða geta sótt um svokallaða lokunarstyrki, að hámarki 2,4 milljónir króna á fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum höfðu tæplega 550 umsóknir borist þann 5. ágúst og nam heildarupphæð þeirra 556 milljónum.

Búið er að útdeila 435 milljónum til 472 fyrirtækja og nemur meðalfjárhæð hvers styrks um 920 þúsund krónum. Um tvö þúsund fyrirtæki voru sögð eiga rétt á lokunarstyrkjum og var áætlaður kostnaður ríkissjóðs tveir og hálfur milljarður.