Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bandarískir þingmenn bannaðir af Kínastjórn

10.08.2020 - 15:16
epa05213534 Republican 2016 US presidential candidate Marco Rubio announces he is suspending his presidential election campaign during a speech at the Florida International University, Florida, USA, 15 March 2016, after losing the Florida Primary to
 Mynd: EPA
Kínastjórn ákvað í dag að setja ótilgreint viðskiptabann á öldungadeildarþingmanninn Marco Rubio og tíu aðra Bandaríkjamenn vegna harðrar andstöðu þeirra við beitingu öryggislaga í Hong Kong.

„Kína bannaði mig í síðasta mánuði. Í dag setja þeir á mig viðskiptabann. Mig langar ekki að hljóma eins og ég sé vænisjúkur, en ég hef á tilfinningunni að þeim líki ekki við mig,” skrifaði Rubio á Twitter.

Marco Rubio fylgdi tístinu eftir með hörðum ásökunum í garð Kínverja þess efnis að æ fleira andófsfólk stæði frammi fyrir handtöku í Hong Kong á grundvelli öryggislaganna alræmdu.

Hann sagði hinn frjálsa heim þurfa að bregðast skjótt við og útvega skjól fyrir Hong Kong búa í hættu. Rubio tiltók þó ekki sérstaklega hvað ríkisstjórnir heimsins ættu til bragðs að taka.

Aðrir öldungadeildarþingmenn hafa sömuleiðis verið harðorðir í garð kínverskra stjórnvalda og sagt þau gera hvað þau geti til að þagga niður í röddum sem krefjast lýðræðis og mannréttinda.