Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Yfir 100 smit í Danmörku fimmta daginn í röð

09.08.2020 - 15:38
epa08593554 Beach goers sunbathe and swim during the heat wave as police checks if people are keeping their distance at Saksild Beach near Odder, Denamrk, 09 August 2020.  EPA-EFE/Helle Arensbak  DENMARK OUT
Danskir lögreglumenn fylgjast með því að strandgestir virði fjarlægðarmörk. Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
128 kórónuveirusmit hafa greinst í Danmörku síðasta sólarhring og er það fimmti dagurinn í röð sem fleiri en 100 ný smit greinast. Meira en helmingur smitanna í dag, eða 72, greindust í Árósum þar sem smitum fjölgar hratt. Smit hefur meðal annars geinst á hjúkrunarheimili í borginni.

169 ný kórónuveirusmit greindust í Danmörku í gær og höfðu þá ekki greinst fleiri smit á einum degi frá því í apríl.

Smitum hefur fjölgað hratt í Árósum undanfarna daga og var tilkynnt á föstudag að frá og með næsta mánudegi þurfi borgarbúar að ganga með grímur á á almannafæri. Í gær biðu íbúar borgarinnar í röðum eftir skimun. Þá hafa yfirvöld á Jótlandi innleitt margvíslegar takmarkanir fyrir sjúkrahús á svæðinu.

Þá greindu borgaryfirvöld í Árósum frá því í dag að smit hafi greinst á hjúkrunarheimili og hefur sérstök aðgerðaráætlun verið virkjuð vegna þessa.

Fjöldi smita hefur einnig greinst í borginni Ringsted á Sjálandi. Þar hafa nú 142 starfsmenn Crown-sláturhússins greinst með veiruna og segir danska ríkisútvarpið DR borgaryfirvöld nú vera í húsnæðisleit til að tryggja að hægt verði að hafa það starfsfólk sláturhússins í einangrun.

Færri smit í Færeyjum

Kórónuveirusmit breiddust þá út með ógnarhraða í Færeyjum í vikunni og höfðu alls 54 smit greinst á föstudag. Í gær var greint frá því að sextán ný smit hefðu greinst síðasta sólarhring og í dag höfðu átta ný smit greinst.

Færeyska ríkisútvarpið Kringvarpið greindi frá því að eitt smitanna tengdist handboltamóti barna og unglinga sem haldið var í Vági í vikunni og hafði sá smitaði aðstoðað við matarundirbúning keppenda.

Færeyingar stóðu í röðum á föstudag til að láta skima sig og voru rúmlega 4.500 skimaðir þann dag. Í dag var svo tilkynnt að Færeyingar þyrftu ekki lengur tilvísun frá heimilislækni til að láta skima sig.

Fréttin hefur verið uppfærð.