Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þjóðarleiðtogar funda um Beirút

09.08.2020 - 09:04
Mynd með færslu
Emmanuel Macron Frakklandsforseti í heimsókn í Beirút í vikunni. Mynd: EBU
Emmanuel Macron Frakklandsforseti býður helstu þjóðarleiðtogum heims til fjarfundar í dag til að ræða hvernig þjóðir heims geti komið Beirút til hjálpar, en borgin varð illa úti í öflugri sprengingu síðastliðinn þriðjudag.

Um 300.000 borgarbúar eru nú heimilislausir. Staðfest dauðsföll af völdum sprengingarinnar eru 158 og þúsundir særðust.

BBC segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa tilkynnt að hann muni taka þátt í fundinum.

Núverandi mat á skaðanum, sem tæp 3.000 tonn af ammóníum nítrati sem geymd voru í vöruskemmu við höfnina ollu, nemur nú 15 milljörðum dollara.

Þúsundir borgarbúa í Líbanon tóku þátt í mótmælum gegn yfirvöldum í gær, sumir köstuðu grjóti og reyndu að ryðjast inn í stjórnarbyggingar og beitti lögregla táragasi gegn mótmælendum.

Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanons, greindi í sjónvarpsávarpi í gær frá því að hann hyggist leita heimildar til að rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta. Með því vonast hann til að koma í veg fyrir að reiði landsmanna þróist út í allsherjar óeirðir og blóðug átök.