Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Óvissa blasir við íslenskum námsmönnum erlendis

09.08.2020 - 17:44
epa08593690 People cycle on a hot day in Cambridge, Britain, 09 August 2020. Britain is in the midst of a heatwave, which could see record breaking temperatures according to some media reports.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íslenskir nemar erlendis glíma við mikla óvissu vegna kórónuveirufaraldursins, nú þegar styttist í að háskólar hefjist á ný. Þetta segir Jóhann Gunnar Þórarinsson, formaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis.

Margir námsmenn erlendis komu heim til Íslands þegar heimsfaraldurinn hófst í vor. Víða voru sóttvarnaraðgerðir harðari en hér á landi og margir töldu að þeim væri betur borgið hér. En ætlar þessi hópur námsmanna aftur út þegar nýtt skólaár hefst í haust?

„Já það er kannski þessi tilfinning sem maður hefur að fólk ætli að láta reyna á það,“ segir Jóhann. Hann þekkir þó dæmi um að fólk sem ætlaði að fara út í haust hafi hætt við og ákveðið að taka stöðuna að ári liðnu. 

Jóhann segir að ástandið sé vissulega erfiðara í sumum ríkjum en öðrum. Óvissan sé þó alltaf til staðar. „Veturinn verður kannski erfiður, það verða auðvitað alls konar takmarkanir í gangi. Svo eru sumir sem eru bara í óvissu, eru á leið út núna og gætu jafnvel horft upp á að fara í sóttkví í tvær vikur. Ætli það sé ekki lykilorðið í þessu; óvissa,“ segir hann. 

Margir að hugsa sinn gang

Jóhann segir að margir nemar sem hafi ákveðið að láta slag standa og fara út í nám í haust geti illa gert sér í hugarlund hvernig næstu misseri verða. Þá getur röskun á skólastarfi jafnframt leitt til félagslegrar einangrunar.

„Ég held að þetta gæti leitt til þess að menn séu meira einangraðir í þessum löndum. Þetta verður ekki jafnmikil upplifun og ekki jafnskemmtilegt að fara út í nám þegar staðan er svona, það er alveg vafalaust. Hvað sum fög varðar er erfitt að ímynda sér að kennslan verði jafngóð þegar allt er í fjarnámi. Þetta hefur tvímælalaust áhrif á mjög marga og margir að hugsa sinn gang með þetta,“ segir Jóhann.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV