Nýtt frá Sycamore Tree, Kalla Bjarna og Unu Stef

Mynd: Una Stef & SP74 / Facebook

Nýtt frá Sycamore Tree, Kalla Bjarna og Unu Stef

09.08.2020 - 14:00

Höfundar

Heimili nýrrar íslenskrar tónlistar, Undiraldan á Rás 2 er að venju stöppuð af íslenskri útgáfu vikunnar þennan sunnudag. Það helsta sem er í boði fyrir tónlistarunnendur er kántrí frá krökkunum í Sycamore Tree, endurkoma Kalla Bjarna og ábreiða af dægurlagi sem þjóðin þekkir.

Sycamore Tree - Storm

Dúett þeirra Ágústu Evu og Gunna, Sycamore Tree, er kominn á kaf í kántríið og sendir frá sér enn eitt lagið úr seríu sem þau kalla Western Sessions og er óður þeirra til sveitatónlistarinnar sem býr í þeim.


Eyþór Ingi og Lay Low - Aftur heim til þín

Eyþór Ingi og Lay Low hafa sent frá sér glæ­nýtt lag sem heit­ir Aft­ur heim til þín, en þetta er í fyrsta skipti sem þau gefa út lag sam­an. Nína Richter samdi text­ann og grunn­inn að lag­inu ásamt Baldri Hjör­leifs­syni en textinn endurspeglar ástandið í samfélaginu í skugga COVID.


Kalli Bjarni - Faces

Karl B. Guðmundsson, eða bara Kalli Bjarni, sem er búsettur í Noregi hefur sent frá sér lagið Faces sem hann samdi að eigin sögn eftir að hafa setið um nótt með nágranna sínum og koníaki að ræða lífið og tilveruna.


Sin Fang ft. JFDR - Lost Girls

Síðustu vikuna í júlí sendi Sin Fang eða Sindri Már Sigfússon út lagið Lost Girls þar sem hann vinnur með Jófríði Ákadóttir úr Samaris og Pascal Pinon. Lagið sem þau gerðu heitir Lost Girls og er lágstemmd rafballaða.


Holdgervlar - Eiturveitur

Holdgervlar eru fyrsta bandið sem undirheimaútgáfan Myrkfælni gefur út en útgáfufyrirtækið var stofnað 2017 af Sólveigu Matthildi úr Kælunni miklu og Kinnat Sóleyju. Eiturveitur verður að finna á breiðskífu sem Holdgervlar hyggjast senda frá sér í haust og heitir Gervihold.


Una Stef & the SP74 - Tunglið, tunglið taktu mig

Hljómsveitin Una Stef & the SP74 var að gefa út lagið og Tunglið, tunglið taktu mig í eigin útgáfu sem hefur sálar og jazzaðan keim. Lagið varð gríðarlega vinsælt í flutningi Ljósanna í bænum og Diddúar árið1978.


Bergrós Halla Gunnarsdóttir - A good thing

Tónlistarkonan Bergrós gefur út sína fyrstu EP-plötu föstudaginn 7.ágúst, sem ber heitið Bedroom Thoughts. Um er að ræða fimm laga þröngskífu sem er hægt að nálgast á öllum helstu tónlistarveitum


Myrkvi - Crossroads

Crossroads er fjórða lag tónlistarmannsins Myrkva og annað lagið sem kemur út á vegum Sony Music. Myrkvi hefur komið inn í íslensku tónlistarsenuna af miklum krafti og hlustendur þekkja vel hans fyrsta lag, Sér um sig, sem náði 2. sæti á Vinsældalista Rásar 2.