Mótmæli gegn Netanyahu halda áfram í Jerúsalem

09.08.2020 - 06:21
epa08592617 Israelis protest against Israeli prime minister Benjamin Netanyahu outside his residence in Jerusalem, Israel, 08 August 2020. Netanyahu faces an ongoing trial with indictments filed against him by the State Attorney's Office on charges of fraud, bribery, and breach of trust.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmælendur halda áfram að safnast saman nærri embættisbústað Benjamíns Netanyahus, forsætisráðherra Ísraels, hvern laugardag til að kalla eftir afsögn hans. Gærdagurinn var engin undantekning og þúsundir óánægðra kjósenda söfnuðust þá saman í miðborg Jerúsalem, ekki fjarri embættisbústaðnum.

 

Þar létu þeir í ljós óánægju sína með frammistöðu ríkisstjórnarinnar í baráttunni við kórónaveirufaraldurinn annars vegar, og hins vegar með þá staðreynd að Netanyahu skuli enn sitja á valdastóli þrátt fyrir að spillingarmál á hendur honum sé nú rekið fyrir dómstólum.

Mótmælendur veifuðu ísraelska fánanum, létu hvína í loftflautum og hrópuðu slagorð gegn forsætisráðherranum. Halda þeir því meðal annars fram að of hratt hafi verið farið í að aflétta hvers kyns takmörkunum og sóttvarnaraðgerðum vegna kórónaveirufaraldursins, þar sem smitum hefur aftur farið fjölgandi síðustu vikur.

Staðfest tilfelli eru rúmlega 82.000 og nær 600 dauðsföll hafa verið rakin til COVID-19. Þá eykur það enn á óánægju fólks, að atvinnuleysi hefur aukist mjög vegna farsóttarinnar og mælist nú ríflega 20 prósent. 

„Vinstralið og stjórnleysingjar“

Sjálfur hefur Netanyahu gert lítið úr mótmælunum og afgreitt mótmælendur sem „vinstralið" og „stjórnleysingja" sem fái allt of mikið pláss í fjölmiðlum. Ekkert lát er þó á mótmælunum og raunar virðast þau þvert á móti færast í aukana fremur en hitt með hverri vikunni, samkvæmt Al Jazeera-fréttastöðinni, sem segir þetta mestu og þrálátustu mótmælaöldu í Ísrael síðan almenningur mótmælti dýrtíðinni í landinu árið 2011. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi