Losaralegar rafstemmur

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Ásbjörnsson - Alda Music

Losaralegar rafstemmur

09.08.2020 - 12:06

Höfundar

Það er Ingvi Rafn Björgvinsson sem styðst við listamannsnafnið dirb og hefur hann nú gefið út samnefnda plötu sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Ingvi Rafn lærði ungur á kontrabassa og söng með kór og hefur frá unga aldri leikið á bassa í hljómsveitum, ,m.a. í Oyama. Hann hóf svo að fikta við raftónlist árið 2013 og tveimur árum síðar varð grunnurinn að „Blow Out“ til, sem er að finna hér ásamt sjö öðrum smíðum.

Sæmilegt

Fyrstu þrjú lögin innihalda sæmilegasta þungavigtarfólk og eru þau nokkuð ólík innbyrðis, þó að hljóðheimi dirb sé fylgt. Opnað er með áðurnefndu „Blow Out“ og er það söngkonan MSEA sem það leiðir. Leysir hún sitt vel af hendi, stemman er drungaleg þó lagið sé meira eins og inngangsstef en eiginlegt lag. Risið í því er vel uppbyggt og sæmilega áhrifaríkt. „Kattarkvæði“ státar af sjálfum Kött Grá Pjé, hljóðheimurinn enn jafn myrkur og aðþrengdur – innilokunarkennd í hljómalíki. Hin mjög svo hæfileikaríka GDRN syngur síðan „Segðu mér“. Píanó og hvellt slagverk – eins og eitthvað sé að brotna - vekur eftirtekt og GDRN tónar listavel yfir blíðri framvindunni, a.m.k. miðað við annað hér!

Líklega best heppnaðasta lagið hérna, einfalt og strípað. Það hefði verið gaman að heyra meira af tónlist í þessa áttina, kannski í framtíðinni? S.O.T.Y. ku endurhljóðblöndun af lagi Beach House, „Girl of the Year“. Þetta ósungna lag fer af stað eins og „We Prick You“ með David Bowie og endar eins og Sigur Rósar lag. Þrátt fyrir þessar mætu viðlíkingar er það samt eins og hálfkarað og er þetta síst eina smíðin hér sem er með því laginu. Og nú er tekið að halla undan fæti. Næst er endurhljóðblöndun af Oyama laginu „Spare Room“ sem er ágæt, hvorki meira né minna. Þá er það „Mosi“, ósungin rafbragur sem siglir um svipuð mið. Ekkert að þessu sosum en ekkert framúrskarandi heldur. „Thruma“ er rökkur-ambient sem varla bærist en ég hrósa dirb fyrir að vera vel fylginn sér þegar kemur að hljóðheiminum sem slíkum. Sömu línu er fylgt að heita má út plötuna. Lokað er með annari endurhljóðblöndun á „Spare Room“.

Kostir

Það er ýmsa kosti að finna hér en margt hægt að lasta um leið. Hljóðheimur dirb, myrkur og svalur, er eitthvað sem hægt er að nýta. Lagasmíðar sem slíkar eru þó oft undir meðallagi og ýmis hljóð sem og lausnir komnar yfir síðasta söludag. Fjölbreytni og -hæfni er þá alla jafna af hinu góða en í þessu tilfelli lýtur fjölskrúðugt lagavalið meira út eins og höfundur hafið verið tvístígandi og bingurinn sem hann endaði með einhvers konar lagakös fremur en merki um að hann valdi fleiri en einum stíl. Þetta er ekki Check Your Head með Beastie Boys m.ö.o. Þessi tvísturslega tilfinning sem maður hefur við plötulok fellir hana öðru fremur. Enda er hún í raun réttu samsett úr þremur „smáskífum“, þremur endurhljóðblöndunum og svo tveimur stemmum. Þetta gat aldrei orðið heildstætt verk. Ég mæli með meiri yfirlegu fyrir næstu umferð, dirb getur þetta vel, en framstillingin á framtíðarefni þarf að vera mun betur úthugsaðri og styrkari.