Hvíta-Rússland: Mótframbjóðandinn í felum

09.08.2020 - 12:30
epa08593096 Belarusian people vote during the presidential elections at a polling station in Minsk, Belarus, 09 August 2020. Five candidates are contesting for the presidential seat, including the incumbent president Alexander Lukashenko.  EPA-EFE/TATYANA ZENKOVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alexander Lukashenko forseti Hvíta-Rússlands sakaði í dag stjórnarandstæðinga um að hvetja til óeirða í tengslum við forsetakosningarnar sem fara fram í dag. Fjöldi fólks sem vinnur með mótframbjóðandanum hefur verið handtekið, og frambjóðandinn er sjálf í felum.

Lukashenko hefur verið við völd frá árinu 1994 og hefur enginn þjóðarleiðtogi í Evrópu ríkt lengur. Mótframbjóðandinn, Svetlana Tikhanovskaya, 37 ára húsmóðir, er hins vegar sterkasti mótframbjóðandinn sem hann hefur átt í höggi við. Eiginmaðurinn hennar, Sergei Tikhanovsky ætlaði að bjóða sig fram en var meinað um það, og síðan fangelsaður. Þúsundir manna hafa sótt kosningafundi hennar, en hún hefur lofað að boða til opinna og heiðarlegra kosninga innan sex mánaða verði hún kjörin.

Kosningastjóri Tikhanovskayu var handtekinn í gær og einn af hennar helstu stuðningsmönnum var hnepptur í varðhald. Tikanovskaya yfirgaf íbúð sína í kjölfarið og fór í felur, en mætti þó í dag til að kjósa. Lukashenko hefur sakað stjórnarandstæðiina um að reyna að efna til óeirða - slíkt verði ekki liðið. Enda er öryggisgæsla mjög mikil.

Í ofanálag er Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, ekki með kosningaeftirlit í Hvíta-Rússlandi þar sem stjórnvöld þar hafa ekki leyft það, en ÖSE hefur ekki talið kosningarnar þar frjálsar og opnar síðustu 25 árin. Sjálfstæði eftirlitshópurinn Right of Choice hefur reynt að hafa eftirlit en 28 af eftirlitsmönnum þeirra hafa verið handteknir.

Allar líkur eru á að Lukashenko verði endurkjörin, þó ekki nema af því að hann eigi auðvelt með að hagræða úrslitunum. Eitt merki þess er að hátt í 42% höfðu kosið utan kjörfundar, sem gerir hagræðingu úrslita auðveldari.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi