Allt of margt fólk á mörgum skemmtistöðum í gær

Lögreglumaður
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Allt of margt fólk var samankomið á 15 af 24 veitinga- og skemmtistöðum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heimsótti í gær, og sums staðar varð ekki þverfótað fyrir fólki, hvorki inni á stöðunum né utan við þá.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að farið hafi verið á 24 veitinga- og skemmtistaði í gær og gærkvöld til að fylgja eftir reglum um sóttvarnir, fjöldatakmarkanir og fjarlægð manna á milli. Eftirfylgni með reglunum reyndist óviðunandi á 15 stöðum.

Mikill fjöldi og troðningur - lögregla íhugar sektir

Það sem mest stakk í augu var að fjöldi gesta var sums staðar slíkur, að alls ekki var unnt að tryggja tveggja metra bil milli manna vegna fjölmennis og troðnings, innan dyra jafnt sem utan. Var eigendum og forsvarsmönnum þessara staða veitt tiltal eftir atvikum, segir í tilkynningu lögreglu, og þeim leiðbeint um hvað betur mætti fara.

Segist lögregla líta þetta alvarlegum augum í ljósi aðstæðna, og því sé til skoðunar að grípa til hertra aðgerða, þar á meðal beitingu sekta, til að sporna gegn brotum á sóttvarnarreglum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi