79 í sóttkví í Vestmannaeyjum

09.08.2020 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
79 eru nú í sóttkví í Vestmannaeyjum og tveir eru í einangrun, en einn einstaklingur hefur lokið sóttkví. 75 voru í sóttkví í gær og þrír í einangrun.

Fram kemur í tilkynningu frá aðgerðastjórn Vestmannaeyja að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi staðið fyrir skimun í Vestmannaeyjum í gær meðal einstaklinga í sóttkví og var hún vel sótt. Þau sýni verða greind í dag að því er fram kom í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi Almannavarna.

Á morgun fer fram skimun á vegum Íslenskrar erfðagreiningar til að kanna útbreiðslu veirunnar í Vestmannaeyjum. Þeir sem hafa skráð sig eru hvattir til að mæta.

Aðgerðastjórn í Vestmannaeyjum var virkjuð á föstudagsmorgun vegna gruns um smit. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild, hefur staðfest að einstaklingur sem nú er í öndunarvél vegna kórónuveirusýkingar hafi smitast í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi