Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skylt að bera grímur á fjölförnustu svæðum Parísar

08.08.2020 - 19:16
epa08590573 People spend time at the Champ de Mars park, next to Eiffel Tower, as the temperature of Paris reaches up to 36-celsius degrees, in Paris, France, 07 August 2020. In France, 53 departments are on drought and heat wave alert as that temperatures reached up to 36 degrees Celsius in the French capital.  EPA-EFE/Mohammed Badra
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vegfarendur sem eiga leið um annríkustu staði Parísarborgar þurfa að bera grímu fyrir vitum sér frá og með mánudeginum. Börn undir ellefu ára aldri eru undanskilin.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sótt í sig veðrið í Frakklandi á undanförnum vikum. Þegar hafa verið settar reglur um grímuskyldu í almannarýmum innandyra þar í landi. Í sumum borgum Frakklands hafa jafnframt verið settar reglur um grímuskyldu á fjölförnum stöðum utandyra. 

Borgaryfirvöld í París hafa ekki gefið nákvæmar upplýsingar um svæðin sem reglurnar taka til. Stærð svæðanna og fjöldi verður hins vegar háð reglulegu endurmati. 

Ráðgjafarnefnd Frakklandsstjórnar um málefni tengd kórónuveirufaraldrinum lýsti því yfir á þriðjudag að Frakkar gætu misst stjórn á útbreiðslu veirunnar á hverri stundu. Um síðustu helgi fjölgaði sjúklingum á gjörgæslu vegna veirunnar í fyrsta skipti frá því í apríl. 

Fleiri en 30 þúsund hafa látist vegna kórónuveirusýkingar í Frakklandi. Fjöldi tilfella á sólarhring hefur aukist frá því um miðjan júlí en í ágústmánuði hafa þau í tvígang farið yfir tvö þúsund.