
Líbanon: Sprengingin leiðir til meiri útbreiðslu
Magna hefur starfað fyrir Rauða krossinn víða um heim við að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma. Hún segir að fyrir sprenginguna hafi heilbrigðiskerfið í Lóbanon átt erfitt með að ráða við faraldurinn. „Það er komið að þolmörkum. Það eru engin rúm, engin gjörgæslurými og það stefndi í þetta. Það var svo mikið áhyggjuefni hvað myndi gerast næst.“
Magna segir sprenginguna gera það ástand enn verra. „Ég get ekki ímyndað mér aðstæðurnar á sjúkrahúsunum. Mörg þeirra eyðilögðust og önnur eru ekki með fulla starfsgetu þar sem þau eru á einhvern hátt eyðilögð. Hjúkrunarvörur eru af skornum skammti, og einnig lyf. Stífkrampasprautur kláruðust ansi hratt á spítölunum.“
Fórnarlömbin auki því mjög álag á sjúkrahús sem voru komin að þolmörkum fyrir. Þá bendir Magna á að í svona ástandi séu sóttvarnir vegna COVID ekki efstar í huga fólks, hvort sem er hjá sjúkrahúsum, slösuðu fólki eða mótmælendum.
„Það eru yfir 300.000 manns heimilislaus, gistandi hjá vinum, ættingum og nágrönnum, jafnvel úti á götu. Allt þetta vegur inn í hættuna á aukinni útbreiðslu.
Við sjáum fram á aukningu. Hvort við sjáum hana í gögnum - ég veit ekki hvort stjórnvöld geti haldið til haga upplýsingum, haldið áfram að skima og annað slíkt. Ég efast um að getan sé til staðar.“