Lægð nálgast úr suðri

08.08.2020 - 08:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Erlingsson - Aðsend mynd
Hæg suðvestanátt er á landinu í dag og skýjað, en úrkomulítið og milt í veðri. Helstar eru líkurnar á að sólin nái að skína á Austurlandi seinni partinn, þar sem hiti getur náð 18 stigum.

Lægð nálgast landið úr suðri í kvöld og vex þá vindur úr suðaustri og fer að rigna sunnan- og vestanlands.

Á morgun gengur svo á með suðaustankalda og má búast við rigningu í flestum landshlutum, en síst þó á Norðausturlandi. Útlit er fyrir ágætis hita fyrir norðan, en að fremur svalt verði syðra.

Það rignir áfram á Suðausturlandi á mánudag, en dregur annars heldur úr vætunni.

Ferðamenn á hálendinu þurfa að hafa í huga að í rigningu og hlýindum verða ár vatnsmiklar og vöð geta því orðið varasöm eða illfær.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi