Íbúinn ekki með kórónuveirusmit

08.08.2020 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki reyndist um kórónuveirusmit að ræða hjá íbúa á Hrafnistu. Greint var frá því fyrr í dag að sterkur grunur hefði vaknað um COVID-19 smit hjá einum íbúanna sem veiktist og hafði verið fluttur á Landspítalann.

Í kjölfarið voru tvær hjúkrunardeildir, Mánateigur og Sólteigur, settar í sóttkví. Tilkynning barst svo rétt eftir klukkan fjögur í dag að ekki hefði verið um kórónuveirusmit að ræða.

María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri Hrafnistu, segir í viðtali við fréttastofu um gríðarlegan létti að ræða. „Þetta getur haft gríðarlega mikil áhrif eins og allir vita ef smit kemst inn á heimilin, þannig að hver dagur skiptir máli.“

Hún sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að brugðist hefði verið strax við til að tryggja öryggi íbúa. „Við vinnum eins og þetta sé staðfest smit og erum að loka til að leyfa okkur að vinna,“ sagði hún.

Búið er að aflétta sóttkví á deildunum. „Við erum bara á sama hættustigi og við vorum á, þannig að við erum með takmarkanir á heimsóknum og gestum er ekki heimilt að vera í sameiginlegum rýmum,“ segir María Fjóla.

Hún segir það óneitanlega hafa vakið starfsfólki og íbúum ugg að frétta af mögulegu smiti. „Það vekur mikinn ugg, en við erum vel undirbúin þannig að það fer ákveðið viðbúnaðarstig af stað. Þar sem við gerum allt sem á okkar valdi stendur til þess að til að hindra það að smit fari þá alla vega á milli, en þessi fjölgun í samfélaginu veldur okkur miklum áhyggjum.“

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi