Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hætt við boðaðar tilslakanir í Danmörku

08.08.2020 - 02:16
Mynd með færslu
Reglurnar breytast ört í Danmörku þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins. Mynd: DR
Dönsk stjórnvöld hyggjast fresta frekari tilslökunum á sóttvarnarreglum, sem boðaðar höfðu verið. Þetta segir Mette Frederiksen, forsætisráðherra, sem hefur áhyggjur af því að smitum fer nú fjölgandi á ný í Danmörku og landar hennar fylgja ekki tilmælum sem ætlað er að draga úr útbreiðslu veirunnar. Yfir eitt hundrað ný smit hafa greinst daglega í Danmörku síðustu þrjá sólarhringa.

Í viðtali við blaðið Danmark, sem rakið er á vef DR, segir forsætisráðherrann blasa við að Danir séu farnir að slaka fullmikið á. Fólk noti minna handspritt, standi of þétt saman í of stórum hópum og svo megi áfram telja. Hvernig haustið verður, segir Frederiksen, veltur á þróuninni næstu daga.

Nánast allt sett á ís

Áhyggjur hennar og ríkisstjórnarinnar af þróun mála eru svo miklar, segir hún, að þau skref sem sem stíga átti til að draga úr takmörkunum og opna samfélagið eftir nokkra daga, hafa nú nánast öll verið sett á ís.

Hugðust fara í fjórða stig opnunar í ágúst

Fjórða stig afléttingar átti að hefjast í þessum mánuði. Það fól meðal annars í sér að koma næturlífinu nánast í fyrra horf með því að heimila dansstöðum, nætur- og spilaklúbbum og skemmtistöðum almennt að hefja hefðbundna starfsemi á ný.

Úr því verður ekki á næstunni, og heldur ekki boðaðri rýmkun á samkomutakmörkunum. Því megi megi áfram að hámarki 100 manns koma saman en ekki 200 eins og til stóð. Ekki verði hins vegar vikið frá áformum um að heimila menntastofnunum, sem verið hafa lokaðar, að hefja aftur starfsemi.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV