Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ekki í myndinni að framhaldsskólar fái undanþágu

08.08.2020 - 10:50
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ekki kemur til greina að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis að veita framhaldsskólum samskonar undanþágu fyrir skólahaldi og leikskólar og grunnskólar hafa fengið.

Skólahald hefst á ný á næstu vikum og hafa stjórnendur framhaldsskóla lýst yfir áhuga á að vera undanþegnir reglum um fjarlægðartakmarkanir. 

Við gáfum ekki undanþágu fyrir því í vetur og ég held að við munum nýta okkur þá reynslu og þekkingu og nálgun sem við notuðum síðasta vetur, þannig að að mínu mati er það ekki inni í myndinni núna,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu.

Óttast ekki alvarleg veikindi barna

Einn þeirra sem smitaðist af kórónuveirunni í annarra bylgju faraldursins er á barnsaldri. Þórólfur segir reynslu og rannsóknir frá því fyrr í vetur ekki tilefni til að óttast að börn veikist alvarlega af veirunni.

„Við höldum enn fast í þá vitneskju og munum grípa til ráðstafana í samræmi við það. Þannig að ég hef engar sérstakar áhyggjur af að við lendum í alvarlegum veikindum með börn, “ segir hann en kveður það vissuleg þó eiga eftir að skýrast.

„Það er svo margt með þennan faraldur og veikindi sem hafa komið manni á óvart, þannig að ég held að maður þurfi að vera opin fyrir öllum nýjum hlutum sem geta komið í ljós.“

Margir enn að fást við eftirstöðvar

Sumir þeirra sem sýktust af veirunni í vetur hafa síðan glímt við alvarleg eftirköst, jafnvel þó að þeir hafi ekki veikst alvarlega á sínum tíma. Þórólfur segir þetta vissulega áhyggjuefni og ekki sé vitað hvort það sama verði uppi á teningnum nú.

„Ég held að menn séu ekki búnir að ná almennilega utan um það og það verði verkefni framtíðarinnar,“ segir hann. „Það er ljóst að það eru margir að eiga við eftirstöðvar eftir sýkinguna, hvort sem að það tengist beint sýkingunni eða einhverju öðru. Það er líka áhyggjuefni að væg veikindi geti haft svona alvarlegar afleiðingar í för með sér.“