Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ekki greinst fleiri smit í Danmörku frá því í apríl

08.08.2020 - 17:30
Mynd með færslu
Reglurnar breytast ört í Danmörku þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins. Mynd: DR
169 ný kórónuveirusmit greindust í Danmörku síðasta sólarhringinn og hafa ekki greinst fleiri smit frá því í apríl. Tæpur helmingur tilfellanna, eða 79 greindust í Árósum.

Þetta er fjórði dagurinn í röð sem yfir hundrað smit greinast og virðist fjöldinn fara stigvaxandi. Á miðvikudag greindust 112 smit, 121 á fimmtudag og 136 í gær. Þann dag greindust 68 ný tilfelli í Árósum og biðu íbúar borgarinnar í löngum röðum í dag eftir skimun.

Danska ríkisútvarpið DR segir dönsk yfirvöld ætla að grípa til frekari aðgerða til að stöðva frekari útbreiðslu veirunnar. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í gær stjórnvöld ætla að fresta frekari tilslökunum á sóttvarnarreglum sem boðaðar höfðu verið.

Smitum hefur fjölgað hratt í Árósum undanfarna daga og var tilkynnt í gær að frá og með næsta mánudegi þurfi borgarbúar að ganga með grímu á á almannafæri. Þá hafa yfirvöld á Jótlandi innleitt margvíslegar takmarkanir á sjúkrahús á svæðinu.

Fjöldi smita hefur einnig greinst í borginni Ringsted á Sjálandi. Þar hafa nú 142 af starfsfólki Crown sláturhússins greinst með veiruna. Allir starfsmenn hafa því verið sendir í sóttkví og verður sláturhúsinu lokað að minnsta kosti næstu vikuna.