Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undanþágubeiðni KSÍ hafnað

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Undanþágubeiðni KSÍ hafnað

07.08.2020 - 13:42
Ljóst er að Íslandsmótin í fótbolta munu ekki halda áfram um helgina eins og vonir innan Knattspyrnusambandsins stóðu til. Heilbrigðisráðuneytið svaraði undanþágubeiðni KSÍ í dag á þann veg að ekki teldist ráðlegt að hefja leik á ný strax vegna kórónuveirunnar. Undanþágubeiðni KSÍ var því hafnað.

Í rökstuðningi ráðuneytisins segir m.a. „Knattspyrnuleikir eru í eðli sínu þannig að ekki er unnt að viðhalda 2 metra nálægðartakmörkun, þrátt fyrir þær reglur sem KSÍ hefur lagt fram um sóttvarnir vegna COVID-19, dags. 6. ágúst 2020. Í því ljósi og með vísan til þess að íþróttaviðburðir falla ekki undir undanþáguákvæði 1. mgr. 8. gr. auglýsingarinnar er því ekki unnt að verða við beiðni KSÍ og er henni því hafnað.”

Öllum leikjum í meistaraflokki, 2. flokki og 3. flokki er því frestað til og með 13. ágúst. KSÍ segir jafnframt í tilkynningu á vef sínum að sambandið muni vinna áfram náið með heilbrigðisyfirvöldum að ná tökum á COVID-19 faraldrinum.

Fjölgun innanlandssmita væntanlega haft sitt að segja

Gera má ráð fyrir því að fjöldi nýrra innanlandssmita sem greind voru í gær vegi þungt í þeirri ákvörðun að ekki sé hægt að halda keppni áfram í fótboltanum strax. 17 ný innanlandssmit greindust í gær.

Vonir KSÍ virðast hafa staðið til að geta leikið um helgina, því í gærkvöld var leikjum laugardagsins frestað, en sunnudagsleikirnir ennþá á dagskrá. Nú hefur þeim leikjum hins vegar líka verið frestað. Síðast var leikið í meistaraflokki karla í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins fimmtudagskvöldið 30. júlí og í Pepsi Max deild kvenna miðvikudagskvöldið 29. júlí.

Mikið eftir af Íslandsmóti

Lið í Pepsi-Max deild karla hafa spilað mest níu leiki, en deildin gerir ráð fyrir 22 umferðum. Stjarnan hefur hins vegar aðeins spilað sex leiki eftir að liðið var sett í sóttkví í júní. Í Pepsi-Max deild kvenna hafa liðin spilað 7-8 leiki en mótið hjá konunum er 18 umferðir. Átta umferðir hafa verið leiknar í Lengjudeild karla og sjö umferðir í Lengjudeild kvenna, en það eru næstefstu deildir Íslandsmótanna.

Í reglugerð KSÍ gaf út 17. júlí segir meðal annars um það ef tvísýnt sé hvort hægt verði að ljúka Íslandsmótunum: „Hafi að lágmarki 2/3 hlutar heildarleikja ... verið leiknir samkvæmt mótaskrá ræður meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir í hverri deild og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í þessum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir.“

Það er hins vegar ljóst að slíkar ákvarðanir verða ekki teknar í bili, enda hefur KSÍ gefið sér tíma út nóvember til að klára öll sín mót.