Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trump bannar viðskipti við TikTok og WeChat

07.08.2020 - 07:55
Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE
Bandaríkjaforseti, Donald Trump, skrifaði í nótt undir tvær tilskipanir sem eiga að stöðva bandarísk fyrirtæki í að stunda viðskipti við kínversku samfélagsmiðlana TikTok og WeChat innan 45 daga, 15. september.

BBC greinir frá þessu.

Trump sagði tilskipanirnar nauðsynlegar til þess að „vernda þjóðaröryggi.“ Í báðum tilskipunum segi að skref þurfi að taka til að ná utan um það neyðarástand sem ríki hjá þjóðinni varðandi upplýsingar og samskiptatækni. Báðum forritum er lýst sem ógn og að hvers kyns viðskipti við forritin og systurfyrirtæki þeirra séu bönnuð en viðskiptin ekki skilgreind nákvæmlega.

Forsetinn segir að Innanríkisráðuneytið og bandaríski herinn hafi þegar bannað notkun TikTok í símum í ríkiseigu. 

Viðskiptabann á WeChat kemur notendum í opna skjöldu

Móðurfyrirtækin ByteDance og Tencent hafa ekki tjáð sig um málið opinberlega enn. Bann forsetanst við TikTok kemur ekki á óvart þar sem forritið hefur sætt harðri gagnrýni undanfarið frá bandarískum stjórnvöldum vegna meintra njósna og ritskoðunar en viðskiptabann á WeChat þykir koma mjög á óvart.

Microsoft á nú í viðræðum við ByteDance um kaup á TikTok á bandarískum, áströlskum, kanadískum og ný-sjálenskum markaði. TikTok hefur samhliða því unnið að því að uppfæra reglugerðir sínar um hvað telst leyfilegt efni og hvað ekki á samfélagsmiðlinum auk þess að herða reglur um varnir gegn pólitískum áróðri. Í gær kom fram að TikTok hyggðist reisa gagnaver í Evrópu sem mun hýsa gögn allra evrópskra notenda.