Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrjú félög Kennarasambandsins samþykkja kjarasamninga

Mynd með færslu
Félag leikskólakennara er eitt félaganna þriggja sem samþykkt hefur kjarasamningana.  Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þrjú af aðildarfélögum Kennarasambands Íslands hafa samþykkt nýgerða kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga. Félögin sem um ræðir eru Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla og Skólastjórafélag Íslands.

Enn er ósamið við Félag grunnskólakennara og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum. Viðræðuáætlun var endurnýjuð í liðnum mánuði og eru í viðræður í gangi.

Atkvæðagreiðslu um samningana þrjá lauk klukkan 11 í dag og voru samningarnir samþykktir með miklum meirihluta atkvæða.

Félögin þrjú skrifuðu undir kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga 10. júlí síðastliðinn og voru samningarnir síðan kynntir félagsmönnum og bornir undir atkvæði.

Haraldur F. Gíslason formaður Félags leikskólakennara sagði eftir undirritun samninganna vera mjög sáttur við þá. Endanlegur úrskurður liggi þó hjá félagsfólki.

81,5% leikskólakennara samþykktu samningana eða 1.008. Nei sögðu 16,51% og auðir seðlar voru 24, eða 1,94%. Alls voru 1.764 á kjörskrá og greiddu 70,7% þeirra atkvæði.

76,5% félaga í Félag stjórnenda leikskóla greiddu atkvæði eða 319 af 417. Já sögðu 280 eða 87,77%, nei sögðu 36 eða 11,2% en auðir seðlar voru þrír. 

93,29% félaga Skólastjórafélagsins sem greiddu atkvæði samþykktu samninginn. Á kjörskrá voru 656 og greiddu 507 atkvæði.  Nei sögðu 31 eða 6,12%, en auðir seðlar voru þrír. 

Gildistími samninganna þriggja er frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2021.