Þjóðfylking Rajapaksabræðra vann stórsigur á Srí Lanka

07.08.2020 - 01:46
epa08584577 Sri Lankan Prime Minister Mahinda Rajapaksa (C) leaves a polling station after casting his vote in the parliamentary elections at a polling station in Tangalla, Sri Lanka, 05 August 2020. Sri Lanka, 05 August 2020. Nearly 16.2 million registered voters will go to the polls in Sri Lanka today to elect 225 Members of Parliament.  EPA-EFE/STR
Mahinda Rjapaksa, forsætisráðherra (fyrir miðju) yfirgefur kjörstað Mynd: EPA-EFE - EPA
Bræðurnir Gotabaya og Mahinda Rajapaksa unnu stórsigur í þingkosningunum á Srí Lanka á miðvikudag. Úrslit þeirra lágu fyrir nú í morgunsárið eystra og eru í stuttu máli þau að Þjóðfylkingin, þjóðernissinnaflokkur forsetans og bróður hans forsætisráðherrans, tryggði sér 145 af 225 þingsætum.

Þá kom traustur samstarfsflokkur þeirra bræðra fimm mönnum á þing, sem þýðir að þeir ráða tveimur af hverjum þremur atkvæðum á þinginu, sem nægir til að keyra í gegn hvaða stjórnarskrárbreytingar sem þeim þóknast. Stjórnmálaskýrendur telja líklegt að þeir muni freista þess að auka völd forsetans á ný og afnema þær skorður sem fyrri ríkisstjórn setti við valdatíð hans.

Þungavigtarfjölskylda í srílönkskum stjórnmálum

Rajapaksa-bræður og fjölskylda þeirra hafa ráðið lögum og lofum í srílönkskum stjórnmálum frá því snemma á þessari öld, með litlum hléum. Mahinda Rajapaksa, sem nú er forsætisráðherra, var forseti frá 2005 - 2015, og Gotabaya bróðir hans vann afgerandi sigur í forsetakosningunum í fyrra.

Flokkur Ranils Wickremesinghe, forvera Mahindas í forsætisráðuneytinu, galt afhroð í kosningunum og kom aðeins einum manni á þing, en var með 106 og fór fyrir ríkisstjórn landsins til skamms tíma.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn nú lýtur forystu Sajiths Premadasa. Hann er sonur Ranasinghes Premadasa, fyrrverandi forseta, sem var ráðinn af dögum árið 1993.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi