Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Samdráttur gistinótta minni í júlí en júní

07.08.2020 - 13:31
Mynd með færslu
Myndin er úr safni. Mynd: RÚV
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands voru gistinætur á hótelum í júlí 269 þúsund. Í sama mánuði í fyrra voru þær 507.800. Samdráttur milli ára er því 47 prósent. Í júní fækkaði gistinóttum á hótelum um 79 prósent milli ára og í maí var samdrátturinn 86 prósent.

Um tilraunatölfræði er að ræða og því eru niðurstöðurnar ekki endanlegar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni gefa bráðabirgðatölurnar þó ágæta vísbendingu um endanlegar tölur. 

Samkvæmt bráðabirgðatölunum er rúmanýting í júlí áætluð um 46,1 prósent samanborið við 70,5 prósent í sama mánuði á síðasta ári. Ekki liggur enn fyrir hve hátt hlutfall hótelgesta voru erlendir ferðamenn. Í júní voru hins vegar aðeins fjórtán prósent gistinótta skráðar á erlenda gesti.