Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reiði og vonleysi í Beirút

07.08.2020 - 13:37
Frá mótmælum í Beirút í gærkvöld. - Mynd: ASSOCIATED PRESS / AP
Nú er vitað um 154 sem létust í sprengingunni miklu í Beirút á þriðjudaginn. Auk heimamanna leita franskar og rússneskar björgunarsveitir áfram í rústum mannvirkja í borginni. Michel Aoun, forseti Líbanons útilokar ekki að flugskeyti eða sprengja hafi valdið valdið hörmungunum.

Aðstoð berst frá útlöndum

Fjöldi ríkja hefur lofað Líbönum hjálpar- eða fjárhagsaðstoð og hjálpargögn berast nú til landsins. Sameinuðu þjóðirnar ætla að veita níu milljónum dollara til heilbrigðisþjónustunnar sem er að niðurlotum komin.

Litlar vonir að fleiri finnist á lifi

Litlar vonir eru taldar um að fleiri finnist á lífi í rústunum. Gísli Rafn Ólafsson, sem hefur unnið við rústabjörgun eftir náttúruhamfarir í Haítí, Nepal og víðar sagði á Morgunvakt Rásar-1 í morgun að hver sekúnda skipti máli þegar leitað væri að fólki í rústum bygginga og ekki líklegt að margir fyndust á lífi úr þessu. 

Mikil reiði almennings

Mikil reiði er meðal almennings í Líbanon, fólk kennir gjörspilltum og værukærum stjórnvöldum um, sem hafi látið viðgangast að nærri 3000 tonn af stórhættulegu ammoníak-nítrati hafi legið árum saman í vörugeymslu við höfnina. Mikil óánægja var fyrir í landinu, fjölmenn mótmæli hófust í október á síðasta ári en lögðust af þegar COVID faraldurinn braust út í mars. Nú kemur fólk á ný saman til mótmæla.

Lögregla beitir táragasi

Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í borginni í gærkvöld og beitti lögregla táragasi til gegn mótmælendum sem kveiktu elda og köstuðu grjóti og öðru lauslegu að lögreglunni. Fólkið safnaðist saman við þinghús Líbanons og krafðist afsagnar ríkisstjórnarinnar. Nokkrir særðust í átökunum.

Sumir vonlausir

Auk reiðinnar segja fréttamenn að margir hafi fyllst vonleysi og örvæntingu vegna hinnar gríðarlegu eyðileggingar. Paul Zacher, apótekari í Beirút, sagði í viðtali við sænska útvarpið að þetta væri erfiðasti dagur lífs síns, það væri ekkert eftir, allt sem hann hefði byggt upp síðustu 35 ár væri ónýtt, allt hverfið við apótekið væri ein rúst.