Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólíðandi að SA hafi stutt Icelandair

07.08.2020 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Það er ólíðandi að Samtök atvinnulífsins skuli í sumar hafa gengið gegn reglum á vinnumarkaði með því að styðja Icelandair í fordæmalausum aðgerðum flugfélagsins gegn flugfreyjum og -þjónum, segir Drífa Snædal forseti ASÍ í föstudagspistli sínum. Það hafi verið örlagaríkur dagur þegar stjórnendur Icelandair lýstu því yfir að þeir ætluðu að sniðganga viðsemjendur og semja við aðra um kaup og kjör.

„Ekki var upplýst um hverjir „þessir aðrir“ voru en það skal sagt eins skýrt og mögulegt er að það er ekki í hendi atvinnurekenda að velja og hafna við hverja þeir semja. Það eru hins vegar þekktar aðferðir úti í heimi að atvinnurekendur reyni að búa til sín eigin stéttarfélög og ganga til samninga við þau,“ segir Drífa í pistli sínum.

Slíkt verði ekki látið viðgangast á íslenskum vinnumarkaði.

„Þó að flugfreyjur hafi gengið frá samningum þá mun þessi „sumargjöf“ elta okkur inn í haustið og lita þau verkefni sem framundan eru,“ bætir Drífa við og segir samningsrétt vinnandi fólks verða varinn.

Drífa minnir á að kjarasamningarnir sem voru undirritaðir síðasta vor feli í sér endurskoðun nú í september hafi forsendur samninganna ekki staðist.

Þrjár forsendur liggi til grundvallar kjarasamningunum —að kaupmáttur aukist, vextir lækki og stjórnvöld standi við þau loforð sem gefin voru í tengslum við samningana.

Drífa segir liggja fyrir að kaupmáttur hafi aukist og vextir lækkað. Engu að síður standi enn útaf fjölmörg þeirra verkefna sem stjórnvöld gáfu loforð um og ferlið við endurskoðun sé skrifað inn í kjarasamningana.

Komist forsendunefnd að þeirri niðurstöðu að forsendur hafi ekki staðist þurfi að hefja viðræður og mikilvægt sé að stjórnvöld komi að því samtali.

„Bæði þar sem þau hafa ekki staðið að fullu við sinn hluta samkomulagsins og þar sem aðstæður á vinnumarkaði eru sérlega krefjandi nú um stundir og verða það áfram,“ segir Drífa.