Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísland á rauðan lista hjá Eistlandi og Lettlandi

07.08.2020 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ísland er nú komið á rauðan lista stjórnvalda í Eistlandi og Lettlandi vegna fjölgunar kórónuveirusmita undanfarið. Er þeim ferðalöngum sem koma frá Íslandi nú skylt að fara í tveggja vikna sóttkví. Litháen er þar með eitt Eystrasaltsríkja sem fer ekki fram á sóttkví eftir Íslandsdvöl.

Vísir greindi fyrst frá. 17 ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og þrjú virk smit greindust úr landamæraskimun. 119 bættust í fjölda þeirra sem eru í sóttkví og er nýgengi innanlandssmita nú 26,5.

Ísland er enn meðal þeirra ríkja sem Norðmenn krefja ekki um sóttkví, þó að Ísland sé komið yfir þau smitmörk sem þarlend yfirvöld hafa sett sér. Greint var frá því í  gær að Íslenskir ferðamenn á leið til Noregs þurfi ekki að sæta tíu daga sóttkví þótt nýgengi smita miðað við 100 þúsund íbúa sé komin yfir 20, sem eru þau mörk sem Norðmenn hafa sett sér.

Bretar, Danir, Svisslendingar og Þjóðverjar hafa ekki heldur fyrirskipað sóttkví fyrir þá sem koma frá Íslandi, þó síðastnefndu löndin þrjú taki mið af nýgengi þegar raðað er á lista líkt og Eystrasaltsríkin.

Í tilkynningu frá norska utanríkisráðuneytinu, sem vitnað er til á vef NRK, kemur fram að fleiri lönd kunni að bætast í hóp „rauðra svæða“. Miðað sé við að talan yfir nýgengi smita sé hærri en 20, samkvæmt lista Sóttvarnastofnunar Evrópu.