Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Herða smitvarnir um borð í Norrænu

07.08.2020 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Farþegar um borð í Norrænu þurfa nú að bera grímu á þeim stöðum þar sem tveggja metra fjarlægð verður ekki viðkomið. Linda Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri Smyrilline, segir fyrirtækið hafa tekið þessa ákvörðun í morgun í kjölfar fjölgunar kórónuveirusmita í Færeyjum og á Íslandi.

Kórónuveirusmit breiðast nú út með ógnarhraða í Færeyjum. 38 smit greindust þar í gær og 54 staðfest smit hafa fundist síðustu þrjá daga. Hér á landi greindust 17 innanlandssmit í gær.

Linda segir fjölgun smita áhyggjuefni, en starfsfólk Norrænu hefur gætt vandlega að sóttvörnum og fjarlægðartakmörkunum frá því að siglingar hófust.

Eins hefur grímuskylda gilt fyrir farþega þegar þeir koma og fara úr ferjunni á Seyðisfirði. Grímuskylda var ekki fyrir þá sem komu og fóru frá borði í Þórshöfn þar til í dag. Linda segir marga þó hafa notað grímur í síðustu ferð.

„Við sáum það svo í morgun þegar skipið var að fara frá Færeyjum til Danmerkur að það var fjöldinn allur af farþegum með grímur. Þannig að það er augljóst að fólk er að taka sóttvarnir aftur mjög alvarlega og er að passa sig betur.

Starfsmenn skimaðir tvisvar í viku

Sóttvarnir starfsmanna hafa nú verið hertar og hér eftir þarf starfsfólki að bera grímur öllum stundum. Eins verður það skimað tvisvar í viku og fær ekki lengur að matast saman.

Þá hafa smitvarnarsérfræðingar verið fengnir um borð í skipið til að yfirfara verkferla um tvisvar í mánuði. „Núna í þessari viku þegar þetta kom upp í Færeyjum og á Íslandi þá fengum við þessa sérfræðinga um borð aftur til þess að fara yfir verkferlanna til að athuga hvort að það væri ekki allt undir „control“ hjá okkur.“

Linda segir sóttvörnum hafa verið viðhaldið allt frá upphafi faraldursins og engin breyting hafi verið gerð á þó smittilfellum hafi fækkað um tíma.

Við höfum aldrei slakað á þessum kröfum þær hafa alltaf verið þær sömu,“ segir hún.

Tilbúin að fjölga skimunum sé þess óskað

Að hennar sögn fylgjast forsvarsmenn Smyrilline vel með þróun mála og eru undir það búin að hefja frekari skimanir sé þess óskað. Linda ræddi við smitvarnaryfirvöld hér á landi og í Færeyjum í morgun og segir þau  enn sem komið er ekki telja ástæðu til að grípa til hertari aðgerða.

Frá því í júní hafa þrír sem greinst hafa með COVID-19 ferðast með Norrænu. Sá fyrsti var Íslendingur sem var að flytja heim eftir búsetu erlendis. Honum var kunnugt um smitið áður en hann kom um borð og var því í einangrun allan tíma. Annar var útlendingur búsettur á Íslandi og voru hann og þeir sem ferðuðust með honum í einangrun um borð. Þriðja smitið var svo í síðustu ferð Norrænu til Íslands og þar sem grunur lék á því fyrirfram var sá einstaklingur einnig í einangrun um borð.