Einn í öndunarvél – Veiran virðist ekki veikari

07.08.2020 - 14:20
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Einn á fertugsaldri er nú í öndunarvél með COVID-19. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna nú rétt í þessu. Hann sagði engin merki um að kórónuveiran væri veikari nú en áður og óttast að nú fari að bera á fleiri alvarlegum veikindum eins og í vor.

Þórólfur sagði að síðustu daga hafi verið rætt um það hvort veiran kunni að vera að veikjast og valda þannig minni veikindum hjá þeim sem sýkjast. Ekki sé lengur útlit fyrir að svo sé. „Ég held að það sé ekki merki um það. Ég held að við séum að fara af stað núna að sjá alvarleg veikindi eins og við sáum síðastliðinn vetur,“ sagði hann.

Þá sagðist hann hafa sent fyrirspurn um þetta til Sóttvarnarstofnunar Evrópu. Svör stofnunarinnar hafi verið á þann veg að engar rannsóknir séu í gangi á því og að enginn þar telji að veiran sé veikari nú en áður.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi