Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Eigum eftir að sjá ýmislegt áður en vikan er liðin“

07.08.2020 - 20:08
Kórónuveirufaraldurinn er skollinn á að nýju, segja almannavarnir. Sautján greindust með COVID hér á landi í gær og einn er alvarlega veikur í öndunarvél. Hann er rúmlega þrítugur. Sóttvarnalæknir segir það ráðast um helgina hvort það þurfi að herða sóttvarnaraðgerðir. Hann segir það geta tekið lengri tíma að ná tökum á faraldrinum núna en í vor.

Ungur maður í öndunarvél

Tuttugu smit greindust í gær; þrjú við skimun á landamærum og sautján innanlandssmit. Meirihluti þeirra var ekki í sóttkví. Um fimmtíu manns eru í sóttkví í Vestmannaeyjum, eftir að fólk sem var þar gestkomandi um verslunarmannahelgina greindist með veiruna. Einn þeirra, 31 árs karlmaður, er á gjörgæslu og í öndunarvél með COVID-19. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þetta setji seinni bylgju faraldursins í annað samhengi, en talið var að veiran gæti verið vægari nú. „Við erum að fá alvarlega veika einstaklinga eins og við gerðum í vetur. Það virðist vera að veiran sé ekkert vægari,“ segir Þórólfur. „Og ég minni á að það tekur yfirleitt upp undir viku að þróa með sér alvarleg veikindi frá því að veikindi byrja þannig að við erum ekki komin út úr því og við eigum eftir að sjá ýmislegt áður en vikan er liðin.“

Gæti tekið lengri tíma að ná tökum á faraldrinum nú

Þórólfur segir að það ráðist á næstu dögum hvort herða þurfi sóttvarnaraðgerðir. Til greina komi að takmarka fjölda sem megi koma saman við fimmtíu eða tuttugu, líkt og gert var í vor. „Þá er það bæði útbreiðsla veirunnar og eins alvarleikinn, ef við erum að sjá mikið af alvarlegum veikindum, þá held ég að maður verði að grípa fyrr til hertra aðgerða.“

Faraldurinn sé í vexti, og virðist nokkuð útbreiddur. Það gæti því tekið lengri tíma að ná tökum á honum núna en í vor. „Núna er þetta ein tegund af veiru sem hefur náð að grafa um sig og hefur náð að dreifa sér sem sýnir bara hvað þessi veira er lúmsk, hún kannski veldur engum usla til að byrja með en svo allt einu þá fer hún á skrið og kemst í viðkvæma einstaklinga og viðkvæma hópa og þess vegna er kannski öllu  snúnara að ná utan um slíkan faraldur og tekur sennilega lengri tíma að kveða hana niður,“ segir Þórólfur.

Hópsmit rakið til veitingastaðar

Sem kunnugt er hefur verið unnið að rakningu tveggja hópsmita, annað þeirra tengdist Akranesi, en hitt var óljósara. Það hefur nú verið rakið til veitingahúss í Reykjavík. Þetta staðfestir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymisins. „Þeir sem að greindust, félagahópur, þeir hittust þarna á veitingastað og út frá því verða smitin,“ segir Jóhann.

Þá hefur einn lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu greinst með veiruna og 21 lögreglumaður settur í sóttkví vegna þess. Ekki er talið að lögreglumaðurinn hafi smitast við störf sín, en samkvæmt heimildum fréttastofu tengist smit hans smitunum í Vestmannaeyjum.