Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vaxandi reiði meðal almennings í Líbanon

06.08.2020 - 13:26
Mynd: EPA-EFE / AP POOL
Vaxandi reiði er meðal almennings í Líbanon vegna sprenginganna á þriðjudag sem urðu að minnsta 137 að fjörtjóni. Reiðin beinist gegn stjórnvöldum, sem vissu af því að tæplega 3000 tonn af stórhættulegu ammonium-nítrati væru í vörugeymslu við höfnina, en gerðu ekkert. Auk þeirra sem létust slösuðust að minnsta kosti 5000 manns, margra er enn saknað og leitað er í rústum. 

Gríðarlegt tjón

Eignatjón er gífurlegt, borgarbúar segja að höfnin sé rústir einar eftir sprengingarnar og höggbylgjur af þeirra völdum, nærliggjandi hverfi séu eins og auðn, fjöldi bygginga og annarra mannvirkja hafi skemmst mikið. Um eða yfir 300 þúsund eru heimilislaus.

Almenningur kennir um spilltum stjórnvöldum

Fréttamenn í borginni segja augljóst að almenningur kenni spilltum og máttlitlum stjórnvöldum um hvernig hafi farið. Melissa Fadlallah, íbúi í Beirút, sem hefur tekið þátt í leit að fólki í húsarústum, sagði óstjórn og spillingu ráðlausrar ríkisstjórnar ástæður þess hvernig komið sé fyrir Líbönum. Stjórnvöld hafi skapað ruslahaug og verði sjálfum varpað á þann haug.

Mjög bágborið efnahagsástand fyrir

Efnahagsástandið í Líbanon var afar bágborið fyrir, mikil verðbólga, atvinnuleysi og innviðir í slæmu ástandi. Þannig var oft rafmagnslaust. Þegar ríkisstjórnin ætlaði að hækka neysluskatta og leggja skatt á samskiptaforritið whatsapp sauð upp úr og almenningur mótmælti, eins og Héðinn Halldórsson sagði á Morgunvakt Rásar-1 í morgun. Héðinn bjó í Beirút þegar hann var starfsmaður UNICEF.

Frakklandsforseti í heimsókn

Erlend aðstoð er farin að berast til Beirút, Frakkar sendu bráðaliða og vistir í gær og Emmanuel Macron Frakklandsforseti kom í heimsókn í morgun. Náin tengsl eru milli Líbanons og Frakklands, eftir fyrri heimsstyrjöldina og fall Tyrkjaveldis ottómana tóku Frakkar við stjórn landsins uns það fékk sjálfstæði 1943. Macron hét Líbönum hjálp á þessum erfiðu tímum, lagði áherslu á tengsl þjóðanna í stuttu ávarpi og sagði bræðrabönd milli þeirra.

Ég er hingað kominn til að sýna stuðning, samstöðu og vináttu við líbönsku þjóðina, sagði Macron.  

Þriggja daga þjóðarsorg

Forseti Líbanons, Michel Aoun, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg. Hassan Diab, forsætisráðherra, lýsti yfir að eftir þennan mikla harmleik sem hefði lostið þjóðina yrði að rannsaka orsakirnar, sömuleiðis yrði að herða björgunarstarf og leita þeirra sem væri saknað.