Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kröfðust þess að Tyrkland standi við Istanbúlsáttmálann

06.08.2020 - 06:22
epa08585825 Women wearing face mask hold placards and shot slogans during prevention of violence against women rally in Istanbul, Turkey, 05 August 2020. According to media reports, Numan Kurtulmus, General Vice President of the Turkish President Erdogan's AK Party said that ' We can leave from the Istanbul Convention because of the this convention encourages homosexuality and not suitable for Turkish family structure'. Istanbul Convention is an international agreement by the Europe Council start in 2011 for the Prevention of Violence against Women and Domestic Violence and signed by 46 countries to date.  EPA-EFE/ERDEM SAHIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir kvenna fylktu liði á götum nokkurra tyrkneskra borga í gær, þar sem þær mótmæltu kynbundnu ofbeldi og kröfðust þess að stjórnvöld létu allar hugmyndir um að segja Tyrkland frá Istanbúl-sáttmálanum lönd og leið.

Mótmæli gærdagsins voru þau fjölmennustu um langt skeið og þykja til marks um vaxandi reiði vegna hugmynda tyrkneskra ráðamanna um að segja landið frá Istanbúlsáttmálanum, alþjóðlegum sáttmála sem miðar að því að draga úr kynbundnu ofbeldi þrátt fyrir að morðum á konum hafi fjölgað í Tyrklandi á síðustu árum.

Tyrkland varð fyrst ríkja til að fullgilda sáttmálann, þar sem meðal annars er tekið er á nauðgunum innan jafnt sem utan hjónabands, kynfæralimlestingu, mansali, ofsóknum gegn hinsegin fólki, heimilisofbeldi og fjölmörgum, kynbundnum ofbeldisverkum öðrum.

Lögregla stöðvaði gönguna í Ismír

Fjöldi kvenna gekk um götur Istanbúl með skilti á lofti þar sem því var heitið að konur fyrirgæfu ekki ofbeldi og samstaða kvenna var prísuð, en í Ismír stöðvaði lögregla kröfugöngu kvennanna og handtók minnst tíu úr þeirra hópi. Þá var einnig efnt til mótmæla í borgunum Adana, Antalya og höfuðborginni Ankara. 

Sjá einnig: Yrði reiðarslag fyrir réttindabaráttu kvenna í Evrópu

Skammt er síðan þúsundir kvenna efndu til mótmæla í Póllandi af sama tilefni, eftir að innanríkisráðherra landsins lýsti vilja til að segja Pólland frá Istanbúlsamningnum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV