
Kröfðust þess að Tyrkland standi við Istanbúlsáttmálann
Mótmæli gærdagsins voru þau fjölmennustu um langt skeið og þykja til marks um vaxandi reiði vegna hugmynda tyrkneskra ráðamanna um að segja landið frá Istanbúlsáttmálanum, alþjóðlegum sáttmála sem miðar að því að draga úr kynbundnu ofbeldi þrátt fyrir að morðum á konum hafi fjölgað í Tyrklandi á síðustu árum.
Tyrkland varð fyrst ríkja til að fullgilda sáttmálann, þar sem meðal annars er tekið er á nauðgunum innan jafnt sem utan hjónabands, kynfæralimlestingu, mansali, ofsóknum gegn hinsegin fólki, heimilisofbeldi og fjölmörgum, kynbundnum ofbeldisverkum öðrum.
Lögregla stöðvaði gönguna í Ismír
Fjöldi kvenna gekk um götur Istanbúl með skilti á lofti þar sem því var heitið að konur fyrirgæfu ekki ofbeldi og samstaða kvenna var prísuð, en í Ismír stöðvaði lögregla kröfugöngu kvennanna og handtók minnst tíu úr þeirra hópi. Þá var einnig efnt til mótmæla í borgunum Adana, Antalya og höfuðborginni Ankara.
Sjá einnig: Yrði reiðarslag fyrir réttindabaráttu kvenna í Evrópu
Skammt er síðan þúsundir kvenna efndu til mótmæla í Póllandi af sama tilefni, eftir að innanríkisráðherra landsins lýsti vilja til að segja Pólland frá Istanbúlsamningnum.