Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Íslensk erfðagreining léttir á álagi veirufræðideildar

06.08.2020 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Íslensk erfðagreining hefur boðist til að aðstoða veirufræðideild Landspítalans og létta á álaginu sem hefur myndast á deildinni vegna skimunar á landamærunum. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna. Landlæknir segir að fjölmiðlar hafi rangtúlkað ummæli sóttvarnalæknis á þann veg að Íslensk erfðagreining ætlaði að koma aftur að skimuninni á landamærunum.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt

Þórólfur hefur sent heilbrigðisráðherra minnisblað um skimanir á landamærunum þar sem hann leggur til að þeim verði haldið áfram með sama hætti.

Margir hafi komið til landsins eða 115 þúsund farþegar og þar af hafi 73 þúsund verið teknir í sýnatöku. Af þeim hafa 27 reynst vera með virkt smit og 100 með mótefni.

Þórólfur sagði að Íslensk erfðagreining hafi boðist til að létta undir með veirufræðideild Landspítalans sem væri komin að þolmörkum vegna skimunar á landamærunum. 

Þórólfur sagði að það myndi taka einhvern tíma að sjá fyrir endann á hópsýkingunni eða nýju bylgjunni eins og hún hefur stundum verið kölluð. Ekki væri þó tímabært að herða á aðgerðum eins og mál standi.  

Enginn liggur á sjúkrahúsi, sem Þórólfur segir ánægjulegt. Þetta megi væntanlega rekja til þess að sé ungt fólk í meira mæli sem er að greinast með kórónuveiruna.

Þrír af þeim fjórum sem greindust í gær með kórónuveiruna voru þegar í sóttkví. Þrjú smitanna voru á höfuðborgarsvæðinu en eitt á Vesturlandi. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV