
Ísland sleppur í gegnum nálaraugað hjá Noregi
COVID-19 smitum hefur fjölgað jafnt og þétt í Noregi eins og annars staðar í Evrópu. Erna Solberg, forsætisráðherra landsins, sagði við fréttamenn í dag að til greina kæmi að herða aðgerðir að nýju til að hefta útbreiðslu veirunnar.
Norsk yfirvöld hafa jafnframt uppfært lista sinn yfir lönd sem eru skilgreind sem hááhættusvæði. Norðmönnum hefur nú verið ráðið frá því að ferðast til Frakklands, Mónakó, Sviss og Tékklands. Aftur á móti hefur verið opnað fyrir ferðalög til nokkurra héraða í Svíþjóð á meðan önnur eru enn á bannlista.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu, sem vitnað er til á vef NRK, kemur fram að fleiri lönd kunni að bætast í hóp „rauðra svæða“. Miðað sé við að talan yfir nýgengi smita sé hærri en 20, samkvæmt lista Sóttvarnastofnunar Evrópu.
Meðal annarra landa sem eru í hættu á að lenda í þessum flokki eru Holland, Pólland og Ísland. Espen Nakstad hjá norska landlæknisembættinu segir Ísland hafa nokkra sérstöðu. „Þetta er fámenn þjóð og það þarf ekki nema 40 til 60 smit til að þessi nýgengistala fari nálægt mörkunum. Það er aðalástæðan fyrir því af hverju Ísland er svona ofarlega á þessum lista.“
Nakstad segir að til greina komi að nota fleiri liti en bara grænan og rauðan yfir lönd sem eru annað hvort örugg eða ekki. Til að mynda gulan þannig ð fólk geri sér betur grein fyrir því hver hættan á smiti er.
Danir hafa einnig uppfært lista sinn yfir þau lönd sem ekki þykir ráðlagt að heimsækja. Þetta eru til að mynda Spánn, Búlgaría, Lúxemborg, Rúmenía, Andorra og Írland.