Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Heimsins fjölbreyttasta flóra er á Nýju Gíneu

06.08.2020 - 04:23
epa06913013 An aerial view of Lae, Marobe Province, Papua New Guinea (PNG), 24 July 2018 (issue 27 July 2018). A confirmed Vaccine Derived Polio Virus (VDPV) in Lae, PNG's second-largest city, was reported to the World Health Organization (WHO) on 21 June 2018. Four rounds of supplementary immunization activity (SIA) targeting children less than five years of age is planned from July to October 2018, to combat the virus. Gavi, the Vaccine Alliance, is a public-private partnership whose mission is to save children's lives and protect people's health by increasing access to immunization in poor countries.  EPA-EFE/GAVI/BRENDAN ESPOSITO MANDATORY CREDIT GAVI/BRENDAN ESPOSITO -- IMAGES AVAILABLE TO BONA FIDE MEDIA FOR REPORTS ON GAVI OR RELATED ISSUES. NO OTHER RIGHTS GRANTED OR IMPLIED -- AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT  EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: epa
Viðamikil rannsókn 99 plöntufræðinga frá 56 háskólum og stofnunum í 19 löndum hefur leitt til þess að eyjunni Madagaskar hefur verið velt af stalli sem heimkynnum heimsins fjölbreytilegustu flóru og Nýja Gínea krýnd heimsmethafi í blóma- og plöntuskrúði í hennar stað.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindatímaritinu Nature. Þar kemur fram að yfir 13.600 tegundir æðplantna hafi fundist á Nýju Gíneu, nær fimmtungi fleiri en á fyrri methafanum Madagaskar. Um tvær af hverjum þremur plöntum eru taldar eiga uppruna sinn á eyjunni.

Allt að 250 ára gömul sýnishorn rannsökuð

Rannsóknin teygir sig allt frá vettvangsrannsóknum á allra síðustu árum aftur til sýnishorna sem evrópskir landkönnuðir söfnuðu á eyjunni á átjándu öld. Þar sem stór hluti eyjunnar er enn svo gott sem ókannað land og allnokkur gömul plöntusöfn enn óyfirfarin áætla rannsakendur að um 4.000 tegundir til viðbótar eigi eftir að finnast á næstu fimmtíu árum, enda bendi nýjustu rannsóknir ekki til þess að uppgötvunum á áður óþekktum plöntum fari fækkandi á Nýju Gíneu nema síður sé.

Paradís sem iðar af lífi

„Þetta er paradís sem iðar af lífi,“ hefur breska blaðið The Guardian eftir Dr. Rodrigo Cámara-Leret, sem stýrði rannsókninni. Fjölbreytileiki landslagsins, frá hvítum sandfjörum upp í hrikaleg fjöll sem teygja sig allt að 5.000 metra upp fyrir sjávarmál, tryggir fjölbreyttari vistkerfi - og þar með fjölbreyttari flóru - en nokkurs staðar annars staðar.

Þar má finna fenjaviðarskóga, hitabeltisskóga á láglendi, fjallaskóga og allra efst, segir Cámara-Leret, rétt neðan við gróðurlínu, eru háfjallagresjur, sem finnast hvergi annars staðar í Suðaustur-Asíu.

Bara fyrsta skrefið

3.962 tegundir trjáa og rúmlega 2.800 orkídeutegundir eru á meðal þeirra 13.634 æðplantna sem greindar voru í rannsókninni, sem er sú fyrsta sinnar tegundar sem gerð hefur verið á flóru Nýju Gíneu. En ekki sú síðasta. „Þetta er ekki endirinn, heldur bara fyrsta skrefið,“ segir Cámara-Leret, sem hvetur kollega sína alls staðar í veröldinni til að halda verkinu áfram.

Nýja Gínea er stærsta og fjöllóttasta hitabeltiseyja Jarðarinnar. Um helmingur hennar skiptist í héruðin Papúa og Vestur-Papúa sem tilheyra Indónesíu, en á hinum helmingnum er hið sjálfstæða ríki Papúa-Nýja Gínea.