Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gera ráð fyrir einhverjum takmörkunum á skólastarfi

Mynd með færslu
 Mynd:
Gera má ráð fyrir að einhverjar takmarkanir verði á skólastarfi í vetur vegna kórónuveirufaraldursins. Beðið er eftir tilmælum sóttvarna- og skólayfirvalda. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands segir að ekki verði hægt að taka endanlegar ákvarðanir fyrr en stefna stjórnvalda í sóttvarnamálum sé komin fram. 

Skólastarf hefst á flestum skólastigum í lok ágúst. Ekki er enn ljóst hvaða áhrif faraldurinn hefur á skólastarfið en flestir búast við einhverjum takmörkunum.

Búa sig undir skólaár með heimsfaraldri

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að takmarkanir vegna faraldursins eigi ekki við um grunnskólabörn en starfsfólk skólanna og foreldrar verða að taka mið af þeim. Stefnt verði að því að halda úti skólastarfi samkvæmt aðalnámskrá. 
 
„Við erum að búa okkur undir skólaár þar sem geta komið minni og stærri bylgjur af faraldrinum og við bara högum okkar skipulagi og sóttvörnum miðað við það. Við getum dregið úr og við getum bætt í. Við erum alltaf að bregðast við þeim aðstæðum sem eru á hverjum tíma.“

Fjarnám, staðnám eða blanda af báðu

Skólahald í framhaldsskólum er enn í óvissu. Á vef Verslunarskóla Íslands segir að óskastaðan sé sú að framhaldsskólar fái sambærilega undanþágu frá reglum um fjöldatakmarkanir og grunnskólar. Þá geti skólahald hafist með nokkuð eðlilegum hætti. Ef skólum verði gert að loka húsnæði sínu, muni kennsla færast yfir í fjarnám líkt og í vor. Einnig sé mögulega hægt að blanda saman staðnámi og fjarnámi og verið sé að skoða mögulega útfærslu á því. 

Beðið eftir fyrirmælum stjórnvalda

Landbúnaðarháskóli Íslands gerir ráð fyrir að hluti af kennslu skólans verði í fjarnámi í vetur. Neyðarstjórn skólans fundaði í gær um ástandið. Þetta kom fram á Facebook-síðu skólans. Þar segir að reglur um hámarksfjölda í rýmum gildi til 13. ágúst en viðbrögð skólans miðast við að þær reglur gildi áfram eða verði jafnvel hertar.  

Háskólinn á Akureyri tekur einnig mið af fyrirmælum stjórnvalda. Fundað var um komandi skólastarf í Háskóla Íslands í gær og neyðarstjórn skólans kom saman.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að hafa beri í huga að væntanlega verði breyting á auglýstri stefnu stjórnvalda í sóttvarnamálum.  
 
„Og við þyrftum að vita meira áður en við tökum endanlegar ákvarðanir. En við gerum okkur alveg grein fyrir því að það verða einhverskonar takmarkanir og við erum að vinna með það.“  
 
Jón Atli vonar að staðan fari að skýrast á næstu dögum.
 
„Helst bara núna fyrir helgi, það væri best, en þetta er það flókið viðfangsefni að við þurfum að sjá hvernig landið liggur áður en við tökum ákvarðanir.“