Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fara á veitingastaði til að tryggja að reglum sé fylgt

Mynd: RÚV / RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stefnir á að fara í eftirlitsferðir á flesta veitingastaði til að tryggja að sóttvarnarreglum sé fylgt. Þetta sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í viðtali við fréttastofu í dag.  

Rögnvaldur sagði á blaðamannafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis í dag að lögreglan hefði fengið töluvert margar ábendingar um að veitingastaðir fylgdu ekki sóttvarnarreglum. Nú þegar hefði lögreglan farið á fjölda veitingastaða og að oftast væri reglum fylgt. Einstaka veitingamenn hefðu þó þurft leiðbeiningar og á einstaka stöðum hefði lögreglan þurft að fara fram á verulegar úrbætur.  

Í viðtali við fréttastofu eftir fundinn sagði Rögnvaldur að þar sem reglum væri ekki fylgt vantaði oftast bil milli borða og ekki væri boðið upp á spritt fyrir viðskiptavini. Hann sagði að lögreglunni væri almennt tekið vel í eftirlitsferðum, enda væri það sameiginlegt verkefni allra að takast á við faraldurinn. Hann sagði að ákveðið hefði verið að „fara mjúku leiðina í fyrstu atrennu og gefa fólki kost á að bæta úr málum“.