Evrópuríki bregðast við fjölgun nýsmita

06.08.2020 - 01:32
epa08585125 People wearing face masks in a market in Malaucene, Vaucluse Department, France, 05 August 2020. Some areas in France are currently facing a rise in COVID19 cases, which pushed the authorities of some cities to make wearing face masks mandatory.  EPA-EFE/JULIEN WARNAND
Víða í Evrópu hefur verið innleidd grímuskylda á opinberum stöðum þar sem margir koma saman. Þessi mynd er tekin á útimarkaði í Frakklandi, þar sem enginn lætur sjá sig grímulausan.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Í Frakklandi greindust 1.695 manns með COVID-19 síðasta sólarhringinn og hafa ekki greinst jafn margir á einum sólarhring í rúmlega tvo mánuði. Yfir 30.000 hafa dáið úr sjúkdómnum í Frakklandi, fleiri en í nokkru Evrópulandi utan Bretlands og Ítalíu. Og Frakkland er langt í frá eina Evrópulandið þar sem farsóttin er að sækja í sig veðrið á nýjaleik, eftir að hafa hjaðnað nokkuð um hríð.

Á Spáni greindust í gær fleiri með veiruna en nokkru sinni frá því að þar var byrjað að losa um hömlur í júní, eða 1.772. Nýsmitum fer einnig fjölgandi í Þýskalandi, Hollandi, Skotlandi, Danmörku, Noregi og á Grikklandi, svo nokkur dæmi séu nefnd, en í mismiklum mæli þó.

Hert á aðgerðum eftir fyrri tilslakanir

Víða hefur verið gripið til hertra aðgerða á ný til að freista þess að koma böndum á þessa nýju bylgju farsóttarinnar áður en illa fer. Grímuskylda hefur verið innleidd í mörgum frönskum, hollenskum og þýskum borgum, ýmist almennt eða í verslunum, almenningssamgöngum og annars staðar þar sem margir koma saman á litlu svæði.

Fjöldatakmarkanir hafa sums staðar verið hertar á ný, líkt og hér á landi, eða drög lögð að því að herða þær aftur, ef nýgengi farsóttarinnar heldur áfram að aukast. Einnig hefur veitinga- og skemmtistöðum verið gert að hætta eða draga mjög úr rekstri sínum í nokkrum borgum og héruðum hinna ýmsu landa og það gildir einnig um amrgvíslega starfsemi aðra, svo sem líkamsræktarstöðvar og snyrtistofur.

Jafnframt hefur færst aukinn kraftur í herferðir stjórnvalda í álfunni, þar sem hnykkt á miklivægi þess að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá næsta manni, þvo sér um hendur og virða almennar sóttvarnareglur.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi