Engar breytingar á skilmálum Borgunar

06.08.2020 - 08:44
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Borgun segir engar breytingar hafa verið gerðar á viðskiptaskilmálum sínum. Veltutryggingunni sem tekur gildi 1. október verði einungis beitt í tilfelli ferðaþjónustufyrirtækja þar sem nauðsynlegt er að tryggja að hægt sé að standa við skuldbindingar við korthafa sem keypt hafa vörur og þjónustu fram í tímann.

Borgun segir í tilkynningu frá því í gær að fyrirtækið hafi aðeins sent 3% viðskiptavina tölvupóst um að það tæki upp veltutryggingu 1. október og  héldi eftir 10 prósentum af kortagreiðslum í sex mánuði. Það séu allt viðskiptavinir sem selji mestmegnis þjónustu áður en hún er veitt.

Borgun tekur fram að engar breytingar hafi verið gerðar á viðskiptaskilmálum þeirra og hvergi hafi komið fram að þetta væri almenn aðgerð. Engum greiðslum sé haldið eftir vegna vöru eða þjónustu sem þegar hefur verið veitt. Það eigi við um alla viðskiptavini Borgunar hvort sem þeir starfi við ferðaþjónustu sem og öðrum greinum.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, gagnrýndi það harðlega ef raunin væri að færsluhirðar héldu eftir prósentu af greiðslum fyrir þjónustu sem þegar væri veitt. Samkvæmt tilkynningu Borgunar er það ekki raunin hjá fyrirtækinu. Ekki náðist í forsvarsmenn fyrirtækisins í gær og fyrradag.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi