Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Diskóið griðastaður litaðs og hinsegin fólks

Mynd: Mario Casciano / Wikimedia Commons

Diskóið griðastaður litaðs og hinsegin fólks

06.08.2020 - 09:48

Höfundar

Diskóið var vinsælasta tónlistarstefna seinni hluta áttunda áratugarins en hún dó drottni sínum eins hratt og hún hafði risið í kringum 1980. Tónlistin sem flaut inn að miðju meginstraumsins spratt þó upp úr jarðvegi hinna jaðarsettu í Bandaríkjunum, samfélögum samkynhneigðra, svartra og rómanskra.

Fjallað er um diskótónlistina, tískuna sem henni fylgdi og þau samfélagslegu viðhorf sem hún boðaði í þættinum Diskódruslunni á Rás 1. Þar segir frá því að tónlistin endurspeglaði angist innflytjenda og jaðarhópa. Það skipti ekki máli hvaða þjóðfélagshópi þau tilheyrðu. Það sem sameinaði þau var sársaukinn og jaðarsetning þeirra vegna litarháttar. Diskólífsstílinn einkenndist af frjálsum ástum, eiturlyfjanotkun, frelsi hinsegin fólks, rými fyrir jaðarhópa og innflytjendur þar sem allir mættust á dansgólfinu. Fatastíllinn endurspeglaði upphafningu hins kvenlega og kvenlegrar nautnar.

Þó svo að diskóið hafi aldrei átt að vera pólitískt verður það óvart stjórnmálatengt vegna uppruna síns. New York er talin vera fæðingarstaður diskósins. Í borginni var mikil rottuplága, innflytjendur hvaðanæva úr heiminum bjuggu saman í nokkurs konar menningarsuðupotti og við mikla fátækt. Diskóið varð flótti fyrir þetta fólk frá drungalegum raunveruleika.

Stefnan rataði á endanum til Íslands en saxafónleikarinn Stefán S. Stefánsson var í hljómsveitinni Ljósin í bænum sem áttu líklega einkennislag íslenska diskósins, Disco Frisco. „Þegar diskóið kom til Íslands þá fáum við svolítið þessa commercial ímynd af diskói, þessi tónlist sem er eiginlega verið að búa til af markaðsöflunum,“ segir Stefán. „Það fannst mörgum mjög lítið kúl. Það var upphaflega hugmyndin mín með Disco Frisco að gera svolítið gys að þessu. Hér vorum við íslenskir þumbar sem vorum næstum bara í vaðstígvélunum úti á túni, en allt í einu kemur svona rosalega slick tónlist inn í líf okkar.“

 

Þessi umfjöllun byggir á fyrsta þætti af þremur í Diskódruslunni, sem er á dagskrá næstu laugardaga klukkan 14:00 á Rás 1. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér. Í Diskódruslunni er diskóið skoðað út frá baráttu litaðs fólks, hinsegin fólks og kynfrelsi og kynvitund kvenna. Umsjón: Eva Halldóra Guðmundsdóttir og Vigfús Karl Steinsson.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Ef á að opna vínflösku þarf ég að spila Dancing Queen“

Tónlist

Dansgólfið lýtur Lögmáli Róisín Murphy

Borða diskósúpu í Umhverfislestinni

Tónlist

Kvöldið sem diskóið var sprengt í loft upp