Bandaríkjamaður sakfelldur fyrir brot gegn 3 drengjum

06.08.2020 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bandarískur karlmaður, sem hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í lok janúar, var í júlí dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum drengjum. Dómurinn hefur ekki verið birtur. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Maðurinn var sakfelldur fyrir öll brotin en hann játaði hluta þeirra þegar ákæran á hendur honum var þingfest. Honum var jafnframt gert að greiða drengjunum miskabætur. Gæsluvarðhaldið dregst frá refsingunni.

Rannsókn málsins var umfangsmikil og fór fram í samvinnu við lögregluyfirvöld í nokkrum löndum sem og Europol. Heimildir fréttastofu herma að maðurinn hafi ferðast um Norður-Ameríku og Evrópu í nokkur ár og beindist rannsóknin meðal annars að þeim ferðalögum.

Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot, kynferðislega áreitni, brot gegn barnaverndarlögum og brot á lögum um ávana-og fíkniefni. Brotin beindust gegn þremur drengjum og virðist maðurinn hafa verið mislengi í samskiptum við þá.

Í einu málinu setti hann sig í samband við dreng haustið 2016 undir því yfirskini að hann væri 11 ára gömul stúlka. Í ákæru kom fram að hann hefði í framhaldinu verið í samskiptum við drenginn undir eigin nafni á netinu allt til 30. janúar á þessu ári. Þá tók lögreglan samskiptin yfir sem fóru fram á snapchat.

Brot mannsins gegn öðrum drengnum voru í ákærunni sögð hafa hafist fyrir tveimur árum og brotin gegn þriðja drengnum fyrir þremur árum. Þau áttu það öll sameiginlegt að maðurinn leitaðist við að öðlast traust þeirra og beitti þá margs konar þrýstingi til að fá þá til að hitta sig í kynferðislegum tilgangi, annað hvort í eigin persónu eða í myndsamtölum á netinu.   

Maðurinn ræddi einnig ítrekað við drengina um andlega vanlíðan sína, sjálfskaða og sjálfsvígshugsanir.  Þá var hann ákærður fyrir að hvetja þá til að prófa maríhúana.

Í ákæru saksóknara, sem var gefin út í lok apríl, var þess krafist að flakkari mannsins, fartölva og farsími verði gerð upptæk.  Fram kom  í ákærunni að á þessum tækjum hefðu fundist tæplega átta þúsund ljósmyndir og rúmlega sextán hundruð hreyfimyndir sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfengin hátt.  Gera má ráð fyrir því að dómurinn hafi fallist á þessa kröfu.

Mbl.is greindi fyrst frá dómnum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi