Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Allir nema einn af ritstjórn DV sendir heim í sóttkví

06.08.2020 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Allir nema einn blaðamaður hafa verið sendir heim í sóttkví eftir að kona, sem gegnir hlutastarfi á ritstjórninni, greindist með COVID-19. Fram kemur á vef blaðsins að konan hafi setið ritstjórnarfund á þriðjudag. Einn blaðamaður var hins vegar í fríi þennan dag og getur því mætt til vinnu.

Þetta kemur fram á DV.is.  Þar segir jafnframt að þetta hafi ekki áhrif á fréttaskrif á vef DV þar sem blaðamenn geti unnið heima og þá muni DV koma út á morgun eins og fyrirhugað var.

DV er til húsa á sama stað og Fréttablaðið. „Þetta er 80 prósent af ritstjórninni en það munu allir vinna heiman frá sér. Sú sem greindist er ekki mikið lasin og maður verður bara að taka þessu af æðruleysi. Við erum að skila blaði í prentun eftir nokkrar klukkustundir,“ segir Þorbjörg Marínósdóttir, ritstjóri DV, í samtali við fréttstofu.

Hún segir að nú sé verið að bíða eftir leiðbeiningum frá smitrakningateyminu en ákveðið hafi verið að senda alla heim sem sátu umræddan ritstjórnarfund í varúðarskyni „Við erum bara öll nokkuð brött.“

Þorbjörg segist ekki halda að smitið hafi áhrif á starfsemi Fréttablaðsins sem er til húsa á sama stað. Þetta séu aðskildar ritstjórnir. „Við höfum verið í samskiptum við smitrakningu og þeirra fyrstu viðbrögð er að það sé ekki nauðsynlegt að senda fólk af Fréttablaðinu heim í úrvinnslu-sóttkví,“ segir Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV