
„Við sáum hana bara skríða yfir veginn“
„Við sáum hana bara skríða yfir veginn,“ segir Birgir Árnason, verkstjóri. Vegagerðin fer í reglulegar eftirlitsferðir til að kanna grjóthrun. Engir varnarveggir eru á þessum vegkafla en sem betur fer varð enginn fyrir skriðunni.
Birgir segir hana allt að þriggja metra þykka og um 50 metra breiða. Óhemju mikil rigning var á suðausturhorninu í gær og í morgun en nú hefur stytt upp og gengur verkið vel. „Það er alveg hreint á fullu verið að moka, þetta er það mesta sem hefur verið.“
Vegurinn er ekki skemmdur en Vegagerðin verður við mokstur næstu tæplega þrjá tímana að hreinsa veginn af vatnsósa aurnum.
Lögregla lokaði veginum fyrst við lónsvegamót við Höfn og síðan var veginum lokað frá Djúpavogi. Nú er Þjóðvegurinn opinn á ný og eru vegfarendur beðnir um að sýna sérstaka varúð þar sem enn verið að moka á veginum.
Viðvörun: Búið er að opna þjóðveg 1 um Þvottárskriður. Enn er unnið á veginum og eru vegfarendur beðnir að sýna sérstaka varúð. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) August 5, 2020