Þrýstir á færsluhirða að fara „sanngjarnari“ leið

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir enga málefnalega ástæðu fyrir því að færsluhirðar haldi eftir prósentu af veittri þjónustu fyrirtækja í lengri tíma. Jóhannes Þór var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2.

Borgun tilkynnti á dögunum þeim fyrirtækjum sem skipta við fyrirtækið að 10 prósentum af heildarfjárhæð færslna verði haldið eftir í sex mánuði. Samtök ferðaþjónustunnar mótmæltu þessu harðlega.

„Við höfum verið mjög föst á að greiðslur fyrir þjónustu sem hefur þegar verið veitt skuli afhentar fyrirtækjunum sem hafa veitt þjónustuna,“ sagði Jóhannes.

Þar sé engin áhætta fyrir færsluhirða að viðskiptavinur fari fram á endurgreiðslu fyrir hótelþjónustu sem þegar hefur verið veitt, frekar en þegar keyptur sé lítri af mjólk úti í búð. 

Dæmi séu um að einn færsluhirðir hafi haldið eftir 400.000 króna greiðslu til fyrirtækis þar sem aðeins 80.00 krónur voru í endurgreiðsluáhættu, þar sem það var þjónusta greidd með fyrirvara. Hitt hafi verið fyrir þjónustu sem þegar hafi verið veitt. 

Jóhannes segist ekki hafa fengið útskýringar á því hvort þetta eigi við um fyrirtæki sem séu komin í neikvæða stöðu gagnvart Borgun eða öll fyrirtæki. Sé það raunin sé það óásættanlegt.

„Við höfum því miður ekki fengið neinar nægilegar skýringar á þessu frá borgun síðan í gær,“ segir Jóhannes en hvetur fyrirtæki til að hafa samband við Borgun og fá upplýsingar um stöðuna hjá sér gagnvart fyrirtækinu. Hann vill vinna úr þessu máli með sanngjarnari hætti með betri samvinnu við færsluhirðafyrirtækin.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi