Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir skipta máli að fólk sjái árangur af aðgerðunum

05.08.2020 - 20:02
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði og einn af höfundum spálíkansins um þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi, segir að hópurinn sé að setja af stað ákveðið áhorf á tölur vegna nýrrar bylgju í fjölda smitaðra. Hann reiknar með að þau verði tilbúin með nýtt spálíkan á næstu dögum. Vinnunni miði ágætlega enda séu þau betur undirbúin núna en síðast.

Sólveig Klara Ragnarsdóttir, fréttamaður, ræddi við Thor í kvöldfréttum RÚV.

Níu smit greindust innanlands í gær og var aðeins einn þeirra í sóttkví. Þrír greindust á þriðjudag en þá voru tveir af þeim í sóttkví.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í dag að sveiflur af þessu tagi væru eðlilegar. Kúrfan núna væri farin að minna á farsóttina í vor.  Hann fundaði í dag með hópnum á bak við spálíkanið.

Thor segir að spálíkanið hjálpi til við að skilja hvert farsóttin sé að fara. „Hann fer yfir; fer fyrst upp og svo niður og það eru mikilvæg skilaboð.“ Fólki sé það nauðsynlegt að sjá að aðgerðirnar sem gripið var til og það sem það leggi af mörkum skipti máli. 

Hann segir sveiflur síðustu daga vera það erfiða í þessu þannig að það verði líka að fara varlega í allar spár. „Þetta eru alveg eðlilegar sveiflur í byrjun og það má ekki draga of miklar ályktanir af þeim og þess vegna ætlum við bara að fylgjast með núna.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV