Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil eftirspurn eftir sálfræðiþjónustu í faraldrinum

05.08.2020 - 20:11
Mynd: Adrianna Calvo / CC0
Níu ný kórónuveirusmit greindust í gær og níutíu og einn er nú í einangrun með virkt smit. Landlæknir segir algengt að fólk finni fyrir kvíða eða vanlíðan þegar mikil óvissa er, líkt og nú.

Löng bið eftir þjónustu 

Smitin níu greindust öll á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, einungis einn var í sóttkví. Þá greindist einn með veiruna á Austurlandi og nú hafa því smit greinst í öllum landshlutum. Mikið álag er á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá er þar mikil aðsókn í sálfræðiþjónustu en staða sem þessi getur vakið upp kvíða og vanlíðan.

„Það er algengt að fólk finni fyrir kvíða þegar svona mikil óvissa er uppi og áhyggjur yfir mörgu, bæði yfir veikindum og afkomu og slíku og við höfum séð aukningu í streitu og vægu þunglyndi,“ segir Alma D. Möller Landlæknir.

Agnes Agnarsdóttir, fagstjóri sálfræðiþjónustu Heilsugsælu höfuðborgarsvæðisins segir að aðsóknin sé mikil.  Verið sé að efla geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar um allt land - en bið eftir slíkri þjónustu getur verið ansi löng.

 „Það er þónokkur bið. Hún getur verið alveg allt að þrír mánuðir og stundum aðeins lengur en þetta er misjafnt eftir stöðvum og stundum er biðin auðvitað styttri og við reynum að forgangsraða.“

Sálræn áhrif önnur nú en áður 

Niðurstöðu úr rannsókn á sálrænum áhrifum COVID-faraldursins hér á landi sem var gerð í kjölfar fyrri bylgjunnar er að vænta á næstu vikum. Agnes segir að það að faraldurinn taki við sér á ný gæti haft önnur áhrif nú en áður. Fólk sé orðið þreyttara á ástandinu.

„Ég held að fólk hafi svolítið haldið að þetta væri búið, verið bjartsýnt og  hugsað - við erum á leiðinni út úr þessu. Fólk er frekar þreyttara í dag. Nú eru kannski líka áhrifin bráðum að koma í ljós hjá fólki sem hefur misst vinnuna. Þannig að það kemur niður á innkomu heimilanna og maður gæti þá ímyndað sér að þetta verði meiri fjöldi.“

Alma segir að harðar aðgerðir tl lengri tíma geti ýtt undir kvíða. 

„Ég held að fólk muni hafa minni áhyggjur af sjúkdómnum því nú er búum við yfir dýrmætri þekkingu og reynslu og erum flinkari í að takast á við hann en vissulega getur fólk haft áhyggjur af því sem framundan er ef það eru einhverjar harðar aðgerðir til lengri tíma, en auðvitað vonum við að þess þurfi ekki.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV