Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mikið manntjón í Beirút

05.08.2020 - 12:45
Mynd: EPA-EFE / EPA
Vitað er að meira en 100 létu lífið í tveimur miklum sprengingum við höfnina í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær. Líklega hafa mun fleiri látist. Yfir fjögur þúsund særðust í sprengingunni. Margir eru alvarlega sárir.

Slys en ekki hryðjuverk

Talið er að sprengingarnar hafi verið slys en ekki hryðjuverk. Sprengingarnar urðu í vöruskemmu við höfnina og talið er að þær hafi orðið í miklum birgðum af ammóníum-nítrati sem þar voru geymdar við ófullnægjandi aðstæður. 

Gríðarleg eyðilegging

Myndir frá Beirút í morgun sýna gríðarlega eyðileggingu. Sprengingarnar og höggbylgjur sem fylgdu ollu mikilli eyðileggingu í borginni, hafnarsvæðið er nánast í rúst, nærliggjandi svæði eins og auðn og mikið tjón annars staðar í borginni. Hús gjöreyðilögðust, sum eru hreinlega horfin. Talið er að meir en 300 þúsund séu húsnæðislaus. Sprengingarnar í gær voru svo öflugar að þær fundust alla leið til Kýpur, meir en 200 kílómetra undan ströndum Líbanons.

Fjölda saknað

Fjölda fólks er saknað og ættingjar og vinir þeirra hafa leitað í örvæntingu á sjúkrahúsum Beirút-borgar. Marwan Abboud, borgarstjóri, líkti sprenginunum við kjarnorkusprengingarnar í Híróshíma og Nagasaki, hann sagði að landið hefði verið á heljarþröm fyrir og hann vissi ekki hvernig landið gæti lifað af þetta gríðarlega áfall, of mikið væri lagt á fólk.

Brast í grát í viðtali

Þegar hér var komið sögu í viðtalinu brast Abboud í grát. Hann sagði að eldur hefði verið í vöruskemmunni og slökkvilið verið að berjast við hann. Slökkviliðsmennirnir hefðu hreinlega horfið þegar sprengingarnar urðu.

Biðja alþjóðasamfélagið um hjálp

Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanons, ávarpaði Líbana í sjónvarpi og hét því að þeir sem bæru ábyrgð á hvernig hefði farið yrði refsað. Diab bað alþjóðlegasamfélagið um aðstoð og mörg ríki hafa þegar heitið því að koma Líbönum til hjálpar. Læknar, lögreglu- og slökkviliðsmenn eru á leið til Líbanons frá löndum víða um heim og mörg ríki hafa heitið fjárhagsaðstoð.

Mikið efnahagslegt tjón

Fyrir utan manntjónið hefur orðið mikið efnahagslegt tjón. Líbanon er illa í stakk búið að takast á við afleiðingarnar, efnahagsástandið var mjög erfitt fyrir og nú hafa sumir lýst ótta við að að landið verði hreinlega gjaldþrota. Beirút-höfn er aðal inn- og útflutningsleið Líbana, segir Sami Nader, stjórnmálafræðingur. Nader segir að höfnin hafi gereyðilagst.